142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[16:22]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er það bæði ljúft og skylt að svara hæstv. ráðherra um þetta. Ég held líka að það skipti mjög miklu máli þannig að hún hafi það í vopnabúri sínu þegar hún ræðir við fjármálaráðuneytið um fjárveitingar til almannatrygginga að það var í upphafi forsenda af minni hálfu í aðhaldsaðgerðunum sumarið 2009 að þessi þáttur yrði tímabundinn. Frá því var gengið í ríkisstjórn.

Hins vegar þegar frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum kom fram frá fjármálaráðherra, vegna þess að þetta var ekki frumvarp sem ég lagði fram sem félagsmálaráðherra, var búið að breyta dagsetningunni frá því sem ég hafði fengið samþykkt í ríkisstjórn úr 31. desember 2012 í 31. desember 2013. Frumvarpið kom svoleiðis frá hæstv. fjármálaráðherra. Þegar ég ræddi við fjármálaráðuneytið í vetur um nýja almannatryggingafrumvarpið kom í ljós að þessi breyting hafði ekki verið felld inn í ríkisfjármálaáætlunina. Mér þótti gersamlega óskiljanlegt að sjá allt í einu að þetta hefði ekki verið tekið inn í ríkisfjármálaáætlunina vegna þess að það var lagt fram í bandormi um aðgerðir í ríkisfjármálum á sumarþingi í júnímánuði 2009 af hæstv. fjármálaráðherra sjálfum.

Varðandi endurskoðun almannatryggingakerfisins verð ég að segja að ég hef svolitlar áhyggjur af því ef hæstv. ráðherra segir í annan kantinn að hún vilji halda áfram með endurskoðun almannatryggingakerfisins en á hinn kantinn er að finna aðgerðir hér sem ganga auðvitað gegn því sammæli sem þar náðist um að ekki yrði greiddur sérstakur grunnlífeyrir óháð tekjum, heldur yrði það þannig að framlög úr hinu opinbera tryggingakerfi mundu renna út á tilteknu tekjubili milli 430–440 þús. kr.

Ég nefni þetta því að auðvitað er erfitt að breyta kerfinu ef svona grunnþættir sem ganga í sjálfu sér gegn hugsuninni í nýju kerfi eru settir aftur á, eins og grunnlífeyrir sem er greiddur óháð tekjum.