142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[16:50]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé rétt að við erum sammála um að gera eins vel og við getum en við getum þá deilt um hvaða aðferðir á að nota. Það er annað atriði sem rennur út um áramót ef því verður ekki breytt og hefur því miður verið framlengt bara ár frá ári. Það eru frítekjumörkin hjá öryrkjunum. Fram kemur í frumvarpinu að óljóst sé um framhaldið þar. Ég ætla nú rétt að vona að það verði ekki skert því að í raun er verið að færa ellilífeyrisþegana upp að sömu frítekjumörkum sem eru um 110 þús. kr. á mánuði.

Ef hæstv. ráðherra kemur í ræðu í lokin vil ég spyrja hvort ekki hafi komið til greina að hækka prósenturnar í heildina, þ.e. að reyna að skila til baka almennum skerðingum með því að fara í gegnum prósentuhækkun og hvort það hafi þá ráðist af bara takmörkuðum fjárveitingum. Það var eitthvað sem tafði frumvarpið nokkuð lengi, ég hafði á tilfinningunni að það væri Sjálfstæðisflokkurinn sem tafði málið, væntanlega út af ríkisfjármálunum. Mig langar til að spyrja hvort það hafi þá ráðist af upphæðinni að menn gátu ekki tekið stærra skref. Eitt af því sem hefði verið mikilvægt að breyta til baka var að bæta við prósentum á allan hópinn til að leiðrétta það sem skert hefur verið á undanförnum árum og sem valdið hefur því að menn hafa dregist aftur úr. Við skulum ekki fara í grafgötur með að allir urðu fyrir tekjuskerðingu á undanförnum árum og sérstaklega voru ráðstöfunartekjurnar minnkaðar. Það tókst hjá fyrrverandi ríkisstjórn að gera það með mismunandi hætti þar sem á milli 15 og 20% kaupmáttarrýrnun varð hjá sumum, allt upp í 30, 35% hjá þeim sem voru tekjuhæstir en niður í 7–8% og upp í 10% hæst hjá þeim sem voru með lægstar tekjur. Það endurspeglast líka í þeim breytingum sem gerðar voru á almannatryggingakerfinu og nú er verið að stíga það skref til baka. En ég hef áhyggjur af þessum hópum fyrir neðan. Við megum ekki auka bilið mjög mikið aftur. Sem jafnaðarmaður þá vil ég að sá munur sé sem allra minnstur og að við getum haldið fullri reisn, hvort sem menn eru ellilífeyrisþegar eða öryrkjar.