142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:46]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Hafandi talað við marga þá sem hafa skrifað undir þessa áskorun til forsetans er nokkuð ljóst að það sem fólki blöskraði var að í þessu árferði sé verið að skerða hlut almennings, skerða það sem rennur til ríkissjóðs um marga milljarða, 2,6 milljarða, 3 milljarða, 4 — sama hver raunverulega talan er. (Gripið fram í.) Gestum sem komu fyrir nefndina bar ekki saman um upphæðina. Þá er spurningin: Hverjum á ég að treysta? Ég er greinilega ekki nógu fróður til að vita hverjum eigi að treysta í þessu máli, hvort ég eigi að treysta stjórnarliðum eða hvort ég eigi að treysta gestum nefndarinnar og þá hvaða gestum. En þetta er það sem fólki blöskraði, að verið að minnka gjaldið til ríkisins, gjaldi til þjóðarinnar í þessu árferði. Það er það sem fólki blöskraði.

Hv. þm. Jón Gunnarsson nefnir að þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta taki svo og svo langan tíma. Rétt. Þar af leiðandi verði ekki hægt að innheimta sérstakt veiðigjald. Það verður ekki hægt að innheimta sérstakt veiðigjald eftir þessum lögum, það er alveg rétt. Ég hjó eftir því og þess vegna spurði ég gesti nefndarinnar trekk í trekk, nánast hvern einasta hóp, hvort ekki væri hægt að innheimta einhver önnur gjöld og fá það sama til þjóðarinnar. LÍÚ nefndi m.a. að hægt væri að auka tekjuskattinn. Það eru fullt af öðrum atriðum sem væri hægt að auka til að fá það sama, þ.e. þannig að þjóðin fengi sama fyrir sinn hlut. (JónG: … allt annað mál.) Þú ert að tala um ákveðið gjald, ákveðið gjaldakerfi, við erum að tala um að sá hlutur komi til þjóðarinnar sem hún vill, að þjóðin eigi lokaorðið um sinn hlut. Það er það sem við erum að tala um.