142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

málefni Reykjavíkurflugvallar.

[16:01]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Málefni Reykjavíkurflugvallar eru í brennidepli eins og svo oft áður og kannski enn meira nú en oft áður. Ég held að málefni Reykjavíkurflugvallar hafi verið á borði síðustu fimm samgönguráðherra að minnsta kosti, þeirra Steingríms J. Sigfússonar, Halldórs Blöndals, Sturlu Böðvarssonar, þess sem hér stendur, Ögmundar Jónassonar og svo núverandi hæstv. innanríkisráðherra.

Það má segja að Reykjavíkurborg og borgaryfirvöld hafi dregið lappirnar og tafið málin leynt og ljóst og svikið ýmiss konar samkomulag sem gert hefur verið. Nægir þar að nefna sem dæmi samkomulag samgönguráðherra og borgaryfirvalda um byggingu samgöngumiðstöðvar eða flugstöðvar. Við lesum um það nú í fréttum að það hefur tekið mjög langan tíma að veita Isavia heimild til að stækka húsnæði sitt sem það notar undir hina miklu alþjóðlegu flugstjórnarmiðstöð.

Sem betur fer, og það ber að þakka fyrir, hafa nokkrir framtakssamir menn hafið undirskriftasöfnun sem ber heitið Hjartað slær í Vatnsmýri. Á nokkrum dögum eða tveimur vikum hafa rúmlega 66 þús. manns skrifað sig á þennan lista, meiri hluti af höfuðborgarsvæðinu. Nokkrar skoðanakannanir hafa verið gerðar sem sýna að 85% landsmanna vilja völlinn áfram í Vatnsmýrinni og 82% borgarbúa vilja völlinn áfram í Vatnsmýri og þar af leiðandi eru aðeins 18% andvíg því.

Til upprifjunar er tímasetningin 2016, þegar loka á tveimur flugbrautum, og 2024, þegar allt á að vera farið. Því má segja, virðulegi forseti, að lokaorrustan um Reykjavíkurflugvöll sé hafin og hún mun standa yfir næstu mánuði og næstu árin ef með þarf og ef til vill ná hámarki í næstu borgarstjórnarkosningum. Að mínu mati og fjölmargra annarra er þetta ekki einkamál borgarstjórnar Reykjavíkur. Hér er um almannahagsmuni að ræða sem snúa að öllum landsmönnum. Þar ber að taka inn í myndina alla hagsmuni en ekki bara takmarkaða hagsmuni Reykjavíkurborgar eða nokkurra borgarfulltrúa.

Þetta er sem betur fer ekki flokkspólitískt mál. Það eru skiptar skoðanir og andstæð sjónarmið í öllum flokkum. Aðrir hagsmunir koma þarna inn í eins og almennt farþegaflug, sjúkraflug — það má nefna að næstum því tvö sjúkraflug eru á Reykjavíkurflugvöll á degi hverjum allt árið um kring, hátíðisdagar meðtaldir. 50% af þeim eru bráðatilvik og oft og tíðum eru skilin milli lífs og dauða, að mati lækna sem ákveða sjúkraflug, þarna. Ef sjúkraflug færist til Keflavíkur skulum við hafa í huga að flutningstími lengist um allt að 60 mínútur, að minnsta kosti. Ég minni líka á þyrluflug með slasaða sem skiptir sköpum í öryggi þeirra. Þess vegna segi ég að ef borgaryfirvöld ætla að halda uppi þeim einstrengingshætti að Reykjavíkurflugvöllur fari tel ég að bygging Landspítalans eigi ekki að vera við Hringbraut heldur eigi að færa þá byggingu á Vífilsstaði.

Vatnsmýrin er mikilvæg og flugið er mikilvægt í atvinnulegu tilliti. Þegar um 1.000 störf, sem tengjast fluginu í Vatnsmýri, og 5.000 störf á Landspítalanum eru tekin með í reikninginn er það einstakt í sögunni ef ein sveitarstjórn ætlar að beita sér fyrir því að allt að 6.000 störf fari burt úr þeim bæ. Að mínu mati eru bara tveir kostir í stöðunni, núverandi staða þar sem völlurinn er í eitthvað breyttu formi eða Keflavíkurflugvöllur. Flugvöllur á Hólmsheiði verður aldrei gerður.

Þá kem ég að samkomulagi ríkis og borgar frá í vor, sem var óheillaskref að mínu mati. Það var leynd og pukur sem enginn vissi af, það sem gert var, en sem betur fer var það háð samþykki innanríkisráðherra. Fyrirvari fyrrverandi innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, er alveg skýr. Þar var sett fram að ef ekki næst lausn hvað varðar framtíð Reykjavíkurflugvallar og byggingu flugstöðvar og aðra þá þætti til langs tíma sem þar eru nefndir er það samkomulag ekki í gildi. Þetta er mikilvægt. Þarna var hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem þáverandi innanríkisráðherra, í raun og veru að framfylgja stefnu sem margir undanfarnir samgönguráðherrar hafa sett fram, sá sem hér stendur úr Samfylkingu, aðrir úr Sjálfstæðisflokki, úr Vinstri grænum og úr Framsóknarflokki. Þarna var hann að setja það fram.

Það er því meðal annars spurning mín til hæstv. innanríkisráðherra hvort þeir fyrirvarar í samkomulaginu sem hann undirritaði séu ekki alveg skýrir og hvort núverandi hæstv. innanríkisráðherra muni ekki halda það í heiðri.

Ég spyr hæstv. innanríkisráðherra líka út í það sem við heyrum í fréttum um viðræður hæstv. innanríkisráðherra við Reykjavíkurborg um framtíð (Forseti hringir.) Reykjavíkurflugvallar. Hvernig ganga þær viðræður? Hver er staðan?

Og ég spyr hæstv. innanríkisráðherra (Forseti hringir.) út í viðbrögð hennar við þeirri miklu undirskriftasöfnun sem þegar liggur fyrir en ég veit að á þeim lista á nöfnum eftir að fjölga.