142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:27]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Ég fagna því tækifæri sem hæstv. utanríkisráðherra gefur okkur þingmönnum til að fjalla um Evrópumálin með þeirri munnlegu skýrslu sem hann hefur nú flutt. Tengsl Íslands við og staða innan Evrópu hefur löngum verið umræðuefni í íslenskum þjóðmálum og lengstum verið uppspretta harðra pólitískra deilna. Það er eðlilegt og skiljanlegt. Í öðrum Evrópulöndum hefur með sama hætti verið tekist á um tengslin við Evrópusambandið um kosti og galla og hagsmuni.

Um aðild Íslands að EFTA og EES-samningnum og Schengen var tekist á hér á landi og hið sama á einnig við um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 blossaði umræðan upp hér á landi um hugsanlegan ávinning af Evrópusambandsaðild og kannanir bentu til að verulegur hluti þjóðarinnar væri spenntur fyrir slíkri aðild eða vildi að minnsta kosti láta á málið reyna. Undir lok stjórnartíma Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, í kringum áramótin 2008/2009, freistuðu forustumenn þeirra flokka að ná saman um að koma ESB-málinu í farveg þótt ekki entist stjórninni aldur til að fylgja því máli eftir.

Í kjölfar þingkosninga vorið 2009 varð að samkomulagi milli þáverandi stjórnarflokka Samfylkingar og Vinstri grænna að hefja viðræður við ESB um hugsanlega aðild Íslands, ef Alþingi væri því samþykkt, með það að markmiði að samningsniðurstaðan yrði borin undir þjóðina.

Vitaskuld hefði mátt efna til þjóðaratkvæðagreiðslu strax síðsumars 2009 og það var vissulega rætt, en varð ekki niðurstaðan, bæði vegna þess að kannanir sýndu afdráttarlausan stuðning við að efnt yrði til viðræðna og hins að margir forustumenn í hreyfingu ESB-andstæðinga töldu, líklega réttilega, að jáyrði þjóðarinnar við aðildarviðræðum gæti bundið hendur margra þegar kosið yrði um samningsniðurstöðu. Á þessi sjónarmið var hlustað, enda þótt þau hafi síðan breyst sem og staða málsins alls. Eftir ítarlega umfjöllun og vinnu við þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um aðildarviðræður lagði meiri hluti utanríkismálanefndar til, sex af níu nefndarmönnum, að teknar yrðu upp viðræður um aðild Íslands en jafnframt var unninn ítarlegur vegvísir um verklag og meginhagsmuni sem stjórnvöld skyldu halda sig við.

Tillagan var þannig samþykkt sem ályktun Alþingis og send ríkisstjórninni sem síðan hófst handa við að framfylgja þeirri ályktun. Þar með ákvað Alþingi hvernig samninganefndir og -hópar væru skipaðir og hver aðkoma Alþingis væri að þeirri vinnu. Nú hefur ráðherra upplýst að hann hafi ákveðið að leysa þessa samningahópa frá störfum og víkur því í veigamiklum atriðum frá lögmætri samþykkt Alþingis án þess að leita samþykkis þess.

Hvað sem líður afstöðu þingmanna til aðildar að ESB verður að virða leikreglur þingræðisins og ég tel að færa megi fyrir því sterk rök að hæstv. utanríkisráðherra sé á þunnum ís hvað þetta áhrærir svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Það er óþarfi að rekja hér í þessari umræðu þau efnisatriði sem utanríkismálanefnd setti fram eða þá vinnu sem unnin hefur verið. Við fáum væntanlega tækifæri til að fjalla ítarlegar um þau mál þegar utanríkisráðherra leggur fram skýrslu sína fyrir þingið sem hann hefur boðað í nóvember næstkomandi. Vonandi.

Ég vil þó ítreka að í stjórnarsáttmála fyrrverandi ríkisstjórnar sagði að flokkarnir væru sammála um að virða ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild að Evrópusambandinu og rétt þeirra til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu í samræmi við afstöðu sína og hafa fyrirvara um samningsniðurstöðuna. Á þeim grundvelli og þeirra meginhagsmuna og verklags sem lýst var í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar féllst meiri hluta þingmanna flokksins á að undirbúa málið þannig að það gæti komið til ákvörðunar þjóðarinnar á upplýstum og málefnalegum grundvelli.

Á síðasta landsfundi flokksins var áréttað að Íslandi væri best borgið utan ESB en að ljúka ætti aðildarviðræðum við sambandið og setja því ferli tímamörk, t.d. eitt ár. Enn fremur að þjóðin kysi síðan um niðurstöður aðildarviðræðnanna.

Það er einlæg sannfæring mín að spurningin um hugsanlega ESB-aðild verði ekki leidd til lykta nema með þjóðaratkvæðagreiðslu. Í því sambandi er það skoðun mín að þá skipti engu hvort gert verði hlé á viðræðunum nú eða aðildarumsókn dregin til baka. Málinu verður ekki ýtt út af umræðuborði þjóðarinnar með slíkum hætti. Það verður áfram deilumál og um það þrefað og tekist á uns þjóðin hefur fengið að ráða málinu til lykta.

Þess vegna er ég sannfærður um að affarasælast væri að ljúka aðildarviðræðum og bera samningsniðurstöðu undir þjóðina. Því fyrr, því betra að mínu mati þótt dagsetningar í því efni geti ekki orðið úrslitaatriði.

Vilji núverandi ríkisstjórn og þeir flokkar sem að henni standa ekki fylgja eftir samþykkt Alþingis frá 2009 er einboðið að Alþingi álykti um framhald málsins og þann farveg sem það yrði þá sett í. Eðlilegast væri að mínu viti að gera það í kjölfar þeirrar úttektar sem nú er í vinnslu af hálfu hæstv. utanríkisráðherra og deili ég þar væntanlega skoðun með hæstv. fjármálaráðherra, formanni Sjálfstæðisflokksins.

Ég sagði í upphafi máls míns að það væri fagnaðarefni að fá tækifæri til að ræða tengsl Íslands við Evrópu. Það er því miður allt of sjaldan sem við fáum ráðrúm hér á Alþingi til að ræða stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu, þar með talin tengslin við Evrópusambandið. Ég tel til að mynda að EES-samningurinn sem ég heyrði hæstv. utanríkisráðherra lýsa fjálglega og stuðningi við, ef ég skildi hann rétt, sé kominn í visst öngstræti. Þar er nú farið að reyna svo á þanþol stjórnarskrárinnar að ég tel einsýnt að öllu lengra verði ekki haldið með hann nema að breyttri stjórnarskrá.

Á næstu mánuðum og missirum munu koma til kasta Alþingis nýjar ákvarðanir sem fela í sér víðtækt framsal á fullveldi sem stjórnarskráin mun ekki þola. Nær engar umræður hafa farið fram um þau álitamál hér á Alþingi, en á síðustu missirum vakti ég þó nokkrum sinnum máls á þessari stöðu án mikilla viðbragða frá öðrum þingmönnum.

Það er sérstök ástæða til að fara þess á leit við hæstv. utanríkisráðherra að hann geri þinginu sérstaklega grein fyrir stöðu EES-málanna fljótlega á næsta löggjafarþingi.

Sú var tíðin, herra forseti, að skilin milli utanríkismála og innanríkismála voru skýr og lítið flæði þar á milli. Þeirri stöðu er ekki til að dreifa í sama mæli í dag. Téður EES-samningur er dæmi um það hvernig innanlandsmálefni og utanríkismál fléttast saman með innleiðingu á fjölmörgum ákvörðunum, reglum og tilskipunum Evrópusambandsins í íslenskan rétt. Í langflestum tilvikum gerist það nær umræðulaust hér í þinginu enda þótt í þeim felist oft viðurhlutamikið framsal á fullveldi. Hið sama má segja um ýmsa alþjóðasamninga á sviði mannréttindamála sem við innleiðum einnig í íslenskan rétt.

Pólitísk, félagsleg, efnahagsleg og menningarleg samskipti sem eiga sér stað í hnattvæddum heimi eru þess eðlis að um leið og fengist er við þau í samskiptum þjóða eru þau viðfangsefni í innanlandsstjórnmálum. Loftslagsbreytingar og hlýnun andrúmsloftsins, mengun, auðlindanýting á opnum hafsvæðum, vopnuð átök og hryðjuverk, vændi, mansal og fíkniefnasmygl, aukin misskipting milli ríkra þjóða og fátækra og fjöldi flóttamanna og hælisleitenda eru allt þættir sem eru í vaxandi mæli viðfangsefni stjórnvalda á heimavelli um leið og engum dylst að á þeim verður ekki tekið með árangursríkum hætti nema með stóraukinni samvinnu þjóða. Þetta eru ógnir sem virða engin landamæri.

Ísland má ekki og á ekki að einangra sig frá þessum alþjóðlega veruleika. Það má vel líta á umræðuna um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu að hluta til í þessu ljósi, þ.e. hvar skipum við okkur í sveit og hvernig högum við tengslum okkar við önnur ríki og ríkjabandalög og fjölþjóðlegar stofnanir og hver er aðkoma Íslands að úrlausn mála sem eru alþjóðleg í eðli sínu? Þetta eru ekki mál sem hægt er að afgreiða með klisjum eða upphrópunum eða „af-því-bara“-svörum. Ísland er Evrópuríki og í gegnum aðildina að EES og Schengen höfum við tekið á okkur þjóðréttarlegar skuldbindingar og deilt fullveldi með öðrum aðildarþjóðum. Fælist minna eða meira framsal ríkisvalds með aðild að ESB en með aðildinni að EES og Schengen?

Hér í þessum sal hafa án efa flestir svör á reiðum höndum við spurningum af þessum toga, en á það við um þorra þjóðarinnar? Um það má ugglaust deila en í mínum huga skiptir mestu máli að álitamál af þessum toga séu krufin, bæði pólitískt og fræðilega, og fram fari opin, upplýst og djúpstæð umræða um málið í samfélaginu öllu. Það verður ekki gert með því að skella hurðum eða setja lok á umræðupottinn. Skiptir þá engu máli hvaða afstöðu menn hafa nú þegar eða kunna að mynda sér í kjölfar umræðu á þessu hitamáli í íslenskri pólitík.

Forseti. Ég er sannfærður um það að við Íslendingar eigum að eiga góð og náin samskipti við aðrar þjóðir, þar með talið frændþjóðir okkar í Evrópu, og þau samskipti á að þróa áfram og efla. En ég hef persónulega ekki sannfæringu fyrir því að Evrópusambandið sé eini eða besti vettvangurinn í því sambandi. Og ég hef vaxandi efasemdir um að EES-samningurinn geti gengið í óbreyttri mynd til frambúðar. En mér virðist málið í höndum núverandi ríkisstjórnar vera í ákveðinni pattstöðu, að hún viti ekki hvert hún hyggst halda og þá er að mínu viti rétt og skynsamlegt að fá leiðsögn þjóðarinnar um framhald málsins. Þess vegna á að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og fá fram vilja þjóðarinnar til málsins. Því hlýt ég að beina þessum spurningum til hæstv. utanríkisráðherra í lok máls míns:

Hyggst ráðherrann eða ríkisstjórnin leggja fyrir þingið einhverja tillögu um framhald málsins eða um næstu skref og þá hvenær? Treystir ráðherrann sér til að fela þjóðinni að ákveða hvernig haldið verður á þessu þýðingarmikla máli í framhaldinu?