142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[16:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (frh.):

Herra forseti. Það væri auðvitað mjög æskilegt að ég fengi aftur fullan ræðutíma þannig að ég gæti haldið samfellu í málflutningi mínum en það er víst til of mikils mælst.

Ég var að fjalla aðeins um að það skipti máli að greina til hvers menn ætluðu að nota upplýsingarnar sem menn hyggjast láta Hagstofuna safna í tengslum við skuldavanda heimilanna. Eru menn þar að tala um húsnæðisskuldir eða almennar skuldir? Eru menn að tala um veðskuldir vegna húsnæðisöflunar sem stofna rétt til greiðslu vaxtabóta? Ef það er andlagið, t.d. í áformum stjórnarflokkanna um lækkun höfuðstóls húsnæðislána, er vandinn ekki mikill. Þá höfum við bestu fáanlegu upplýsingar um það mál frá þeim aðila sem safnar þeim reglulega saman og verður að gera eðli málsins samkvæmt vegna þess að á grundvelli skattframtala og samkeyrslu við fjármálastofnanir sem skattinum er nú heimil höfum við árlega aðgang að þeim upplýsingum og þær eru notaðar við álagninguna og útgreiðslu vaxtabóta.

Ef menn eru hins vegar að fjalla um skuldavanda heimilanna í víðara samhengi skil ég að menn telji meira þurfa til. Vandamálið er kunnugt og við stríddum við þetta á síðasta kjörtímabili. Ég minnist ársins 2010 þegar mikil umræða og vinna var lögð í skuldamál heimilanna í aðdraganda þess að samkomulag náðist við fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóði um 110%-leiðina svonefndu. Á haustmánuðunum var unnin mikil upplýsingavinna en það var djúpt á þeim upplýsingum á köflum, m.a. frá Íbúðalánasjóði. Eftir atvikum vorum við seint á árinu þannig að maður kannast vel við þetta vandamál. Sú hugmynd er gömul að Hagstofan verði þá tækið sem safni þessum upplýsingum, að hún fái þær frá öðrum aðilum.

Um leið er ljóst að vandasamt er að fela slíkri stofnun, sem er ætlað í grunninn annað hlutverk, hagsýslugerð, söfnun hagrænna upplýsinga, verkefni af þessu tagi. Það er nærtækt að minnast þess hvernig Hagstofan sjálf brást við þegar henni var ætlað hlutverk í sambandi við álagningu veiðigjalda. Þá var Hagstofan á því að það væri utan við hennar verksvið, að hún væri að nota upplýsingar úr sínum gagnagrunni eða vinna með öðrum aðilum eins og Fiskistofu með þau gögn og bar því meira að segja við að það yrði brot á evrópskum stöðlum. Nú veit ég ekki hvort það hefur komið upp í tengslum við þetta mál. Er Hagstofan í einhverri annarri stöðu hér en hún hefði þá orðið miðað við það hlutverk sem henni var ætlað í sambandi við álagningu veiðigjalda? Spyr sá sem ekki veit, ég hef ekkert heyrt um það.

Þó að ég gangist vissulega við því að þessi hugmynd um Hagstofuna hafi verið uppi á fyrri árum, Hagstofunni voru meira að segja lagðir til fjármunir til að hún gæti unnið betri gagnagrunna, bæði um fjármál heimila og fyrirtækja, áskil ég mér engu að síður rétt til að ræða opið hvernig þessu verður best fyrir komið bæði til skemmri og lengri tíma. Erum við kannski að sækja vatnið yfir lækinn með því að notast ekki einfaldlega við gögn skattsins?

Væri hægt að bæta úr þeirri gagnasöfnun með því að fjölga reitum í forskráða framtalinu? Væri þar hægt að afla samþykkis einhvers hluta framteljenda við því að þeirra gögn mætti nota í greiningarvinnu í sambandi við þróun skuldamála heimilanna? Ef andlagið er húsnæðisskuldir sem stofna rétt til vaxtabóta er þetta ekkert vandamál. Þá liggja þær algerlega fyrir í gögnum skattsins. Það mætti jafnvel hugsa sér að strax á fyrri hluta ársins mætti á grundvelli forskráðu upplýsinganna færa sig framar í tíma og strax í febrúarlok eða mars hefðum við aðgang að þeim gögnum í greiningarvinnu af þessu tagi. Mér finnst þessum spurningum ekki öllum hafa verið svarað nægjanlega í tengslum við svo stórt og afdrifaríkt mál eins og hér er undir því að við verðum að horfast í augu við að við erum að reka okkur þarna á mjög viðkvæma hluti samanber afstöðu Persónuverndar og umsagnir hér um.

Til lengri tíma litið held ég að við þurfum að eignast aftur eða eignast einhvers konar einingu sem ég hef í huganum kallað ráðgjafar- og greiningarstöð húsnæðismála í landinu. Á vissan hátt áttum við það á fyrri tíð meðan Húsnæðisstofnun ríkisins var og hét, blessuð sé minning hennar, því að í raun fór hún með húsnæðismálin, bæði almenna hlutann og þann félagslega, Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. Þar var tæknideild og þar var fagdeild sem gat greint talsvert upplýsingar og var notuð sem slík. Þetta var allt lagt niður eins og kunnugt er og hin miðlæga þekking sem þarna var glataðist þar með. Markaðurinn hefur sjálfsagt átt að leysa þetta eins og allt annað, ekki satt? Og það tókst svona snilldarlega — eða hitt þó heldur.

Auðvitað þyrfti maður klukkutíma til að ræða hér sorgarsögu Íslands í húsnæðismálum og hvernig í ósköpunum við, þó þetta vel gefin þjóð að sögn, höfum getað klúðrað þessu svona hressilega. Því að það höfum við gert. Hér ræddu menn aðeins um einkaeignarstefnuna, í sérstakri umræðu sem ég gerði hlé á máli mínu fyrir, og þar nefndu margir réttilega að ógæfa okkar væri auðvitað sú glórulausa séreignarstefna sem hér hefur verið keyrð fram á pólitískum forsendum. Fólki sem alls ekki hefur greiðslugetu til er ætlað að rembast við það á lífsævi sinni að eignast og afskrifa húsnæði. Þetta er hvergi svona, jafnvel ekki í löndum þar sem lífskjör eru talsvert betri en á Íslandi. Þá horfast menn í augu við að það þarf fjölbreytt úrræði sem henta aðstæðum fólks og auðvitað verður að vera til almennilegur leigumarkaður.

Mér finnst fínt að Samfylkingin leggur fram þetta þingmál núna. Hún hefur farið með þessi mál í sex ár samfellt að undanförnu og það stendur henni nærri að beita sér nú fyrir því að átak verði gert í þessum efnum.

Ég hefði sem sagt gjarnan viljað að það væri skoðað betur hvort við erum endilega á réttri leið þegar hingað er komið. Það er komið árið 2013. Það er ljóst að sem betur fer er skuldavandinn hjá heimilunum að réna. Það munar um minna en það að neikvæð staða í húsnæðislánum hefur helmingast á undangengnum tveimur, þremur árum eftir að þetta fór að lagast. Þar með er ekki sagt að vandinn sé ekki ærinn og mikill til staðar hjá mörgum en hann er það víðar. Hann er hjá leigjendum og vandi heimilanna stafar ekki síður af öðrum skuldum en skuldum vegna öflunar húsnæðis. Það sýna allar greiningar, því miður. Ég veit ekki hvort er að vænta tillagna um úrræði í þeim efnum.

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi finnst mér þetta líka svolítið vandræðalegt mál orðið fyrir þingið, að við skulum ekki ná saman um lagfæringar eftir atvikum á þessu frumvarpi eða einhverja aðra úrlausn sem við teljum fullnægjandi. Það er ekki djúpstæður ágreiningur um að við viljum gera hvort tveggja, hafa aðgang að greinargóðum upplýsingum og einhver tæki til að fylgjast með þróun mála en um leið halda í heiðri nauðsynlega persónuvernd og ekki ganga á skjön við stjórnarskrána í þeim efnum. Það væri alveg einnar messu virði, finnst mér, að setjast betur yfir þetta mál. Þess vegna tel ég að tilboð minni hlutans hafi verið mjög gott, að heita því að halda þessari vinnu áfram í samstarfi og reyna að klára þetta til dæmis í októbermánuði og vita hvort við næðum ekki saman um málin.

Það kann að vísu að vera mönnum mikið metnaðarmál að fá þetta frumvarp samþykkt. Hæstv. forsætisráðherra er yfirmaður Hagstofunnar og flytur þetta mál, er það ekki þar með? Þetta er liður í hinum miklu kosningaáherslum Framsóknarflokksins, en það er hvort sem er búið að slátra þessu talsvert með breytingartillögum meiri hlutans. Kannski er það bara orðinn bitamunur en ekki fjár fyrir forsætisráðherrann hvort þær sem slíkar verða teknar hér í gegn eða þetta unnið betur. Hann á ekki orðið mikið í frumvarpinu, hæstv. ráðherrann, flytjandinn, eins og nefndin er búin að fara um það höndum. Það er vel, það á að hrósa nefndum þegar þær fara rækilega í gegnum mál og bæta þau ef við trúum því að verið sé að gera það. Það sýnist mér vera reynt hér af góðum vilja af hálfu meiri hluta nefndarinnar, en spurningin er hvort það er nóg og hvort ekki sé hægt að gera betur.

Menn segja núna að við ætlum að hafa þetta úrræði í gangi tímabundið og afmarka það. Gott og vel, en hvað svo? Á þá bara ekkert að gera aftur? Förum við þá bara í gamla farið, að stjórnvöld séu ekkert að fylgjast með þróuninni o.s.frv.? Ég er ekki viss um að það sé gott. Mér hefði fundist miklu betra ef við hefðum getað séð til lengri framtíðar hvernig við ætlum að skipa þessu og hafa eitthvert tæki og upplýsingar í okkar höndum sem við teljum fullnægjandi. Ég endurtek þá hugmynd að menn velti fyrir sér að einhvers konar eining verði til til frambúðar, einhvers konar greiningar- og ráðgjafarstöð um húsnæðismál eða skuldamál heimilanna. Ég gæti til dæmis séð fyrir mér að eitthvað af því tagi tæki við af embætti umboðsmanns skuldara, sem við þurfum vonandi ekki að reka, a.m.k. ekki í óbreyttri mynd, um aldur og ævi, einhver eining sem væntanlega ætti heima undir velferðarráðuneytinu og væri tæki stjórnvalda í þessum efnum.

Varðandi Íbúðalánasjóð væri þá til dæmis dálítið önnur staða uppi hvað varðar vistun hans, aðkomu og hlutverk, þ.e. ef menn hefðu ákveðið að taka á þessum málum með einhverjum slíkum hætti.

Við Íslendingar verðum einhvern veginn að setja okkur það takmark að ná betri tökum á þessum málaflokki. Það er ómögulegt að hugsa sér framtíðina þannig að þetta verði bara viðvarandi vandræði á okkur. Þetta kostar svo mikið, það hefur svo ofsaleg áhrif á lífskjörin í landinu og aðstæður fjölskyldna ef þessum málum er ekki nógu vel skipað. Þetta er á margan hátt eitt það allra mikilvægasta til að menn geti lifað sómasamlegu lífi, búið við sæmilegt öryggi og að það séu ekki einhverjar ægilegar girðingar á veginum úr foreldrahúsum út í fyrstu búsetu eða þegar menn þurfa að stækka við sig vegna stækkandi fjölskyldu, svo maður tali ekki um hvernig gaddavírsgirðingarnar hafa rist í gegnum íslenskt samfélag aftur og aftur vegna aðstöðumunar kynslóðanna fyrir og eftir verðtryggingu, fyrir og eftir misgengi eða núna fyrir og eftir hrun eða hvað það nú er. Sagan er vörðuð af þessu hjá okkur.

Skást var þetta, held ég, á meðan Húsnæðisstofnun ríkisins var við lýði og meðan Byggingarsjóður verkamanna var raunverulegt félagslegt úrræði og menn horfðust í augu við að það þurfti stuðning við tekjulægstu fjölskyldurnar til að komast í sómasamlegt húsnæði. Hann var að vísu sambland af leiguúrræðum og sjálfseignarstefnu. Það var farvegur fyrir menn að eignast líka sitt eigið húsnæði í því kerfi, en það var horfst í augu við að það yrði að gera með stuðningi við þá sem vildu þá leið, ættu svo kauprétt o.s.frv.

Virðulegur forseti. Þar sem ég sé að tíma mínum er að ljúka ætla ég bara að endurtaka þá hugmynd að menn leyfi þessu máli aðeins að þroskast. Ég held að það farist ekki himinn og jörð, ég sé ekki að það breyti eiginlega neinu um þau áform stjórnvalda, stjórnarflokkanna um heimsmetið í sambandi við skuldaaðgerðir í þágu heimila miðað við þá tímalínu sem nú hefur verið upplýst að sé í gangi í þeim efnum. Ég held ekki að endilega þurfi að hugsa þetta mál í því samhengi. Andlagið hlýtur að vera skuldirnar, lánin eins og þau standa og það liggur nokkuð vel fyrir hver þau eru. Það verða ekki þannig stökkbreytingar á þeim í sjálfu sér á milli ára að menn þurfi að setja þetta í gang þess vegna, enda yrðu menn þá að bíða. Ef menn segja að þetta sé nauðsynleg (Forseti hringir.) forsenda aðgerðanna yrðu þær samt alltaf að bíða eftir því að þetta færi í gang, upplýsinganna yrði aflað og að Hagstofan ynni úr þeim. Það er væntanlega ekki verið að tala um það.