142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[16:14]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur einhvern veginn sífellt betur í ljós að tilgangurinn með þessu frumvarpi var aldrei skýr frá upphafi. Tilgangurinn virðist vera tvíþættur í það minnsta, annars vegar sá að öðlast betri hagskýrslur almennt og hins vegar sá að eiga við þetta meinta neyðarástand.

Ef við einblínum á hið meinta neyðarástand, sem er jú skuldavandi heimilanna, hefur fólk sem er í þeim vandræðum ekki verið feimið við að tjá hug sinn undir fullu nafni á internetinu og víðar, það hefur ekki verið feimið við að leita til umboðsmanns skuldara. Það er ekki feimið við að leitast við að veita yfirvöldum þær upplýsingar sem þarf til þess að leysa vanda þess hóps. Því velti ég fyrir mér hvers vegna við þurfum þessar upplýsingar um alla, því að nú hef ég ítrekað bent á að hægt er að fara leið, tæknin er til staðar, hún er í notkun, það er hægt að fara leið sem tryggir upplýst samþykki hvers og eins aðila sem kærir sig um að vera með í þessu líka brýna verkefni.

Því verð ég að spyrja: Til þess að laga vandamál og skoða vandamál og afleiðingar gjörða ríkisstjórnarinnar gagnvart þeim hópi sem er í vandræðum, er í skuldavandræðum, er í þessari neyð: Mundi ekki nægja að hafa svo gott sem allar skulda- og jafnvel eignaupplýsingar um þann hóp og bara þann hóp til að ná því markmiði að eiga við skuldavanda heimilanna?