142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:20]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar og ég höfum nú nokkrum sinnum rætt um skuldavanda heimilanna og upplýsingar um stöðuna. Það var á síðasta kjörtímabili þegar hv. þingmaður var formaður efnahags- og viðskiptanefndar sem hafði þetta mál til meðferðar, að minnsta kosti síðari hluta kjörtímabilsins. Þá var fullyrt að ekki þyrfti neinar lagaheimildir til þess að safna saman þeim upplýsingum sem Hagstofan átti að safna. Verið var að bíða eftir tölum frá Hagstofunni. Þáverandi ríkisstjórnin hafði veitt til þess fjárheimildir svo Hagstofan gæti farið í það að safna þessum upplýsingum án þess að Alþingi fjallaði sérstaklega um með hvaða hætti halda ætti utan um þær upplýsingar, hvernig afmarka ætti verkefnið eða að gætt væri að því að ræða um persónuverndarsjónarmið í því sambandi.

Þess vegna langar mig til að fá hv. þingmann, sem stýrði þeirri vinnu innan nefndarinnar á síðasta kjörtímabili, til að upplýsa okkur um það hvaða upplýsingar það voru sem Hagstofan átti að safna saman ef það eru ekki þær upplýsingar sem við ræðum hér um. Ég tel að hefði fyrrverandi ríkisstjórn leitað allra leiða fyrr á síðasta kjörtímabili til þess að leiða þetta mál til lykta og safna saman upplýsingum þannig að hægt væri að ræða um úrlausnir til handa skuldugum heimilum þá værum við ekki hér í dag. Þá værum við einfaldlega búin að átta okkur betur á stöðunni.

Í annan stað langar mig að biðja hv. þingmann um að upplýsa mig. Ég skildi hv. þingmann þannig að hann væri ósammála markmiðum frumvarpsins. Hann er ósammála afmörkuninni á verkefninu sem birtist okkur í frumvarpinu og fullyrðir að engir ríkir almannahagsmunir réttlæti það að safna saman þessum upplýsingum. Ef það er mat fleiri stjórnarandstöðuþingmanna, hvernig hefði þingheimur átt að komast að sameiginlegri niðurstöðu um einhverja aðra útfærslu á þessu máli?