142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:54]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að spyrja hv. þm. Pétur H. Blöndal tveggja spurninga, aðra mér til fróðleiks.

Sagt er að fólk viti ekkert sérstaklega vel hver skuldavandinn er. Kippir það ekki svolítið stoðunum undan því að þetta sé svona ofboðslega mikið neyðarástand? Ég man að í kosningabaráttunni var kosið mikið til eftir verðbólgunni og verðtryggingu óháð því hvort fólk var endilega í greiðsluvanda, fólk var reitt burt séð frá því hvort það var í eiginlegum greiðsluvanda. Þetta hljómar pínulítið eins og markmiðið með frumvarpinu sé að athuga hvort hér sé neyðarástand eða ekki. Ég hefði gaman af því að heyra hvað hv. þingmaður segir um þetta.

En svo er hitt sem hv. þingmaður nefnir með réttu, að skatturinn hafi fullt af gögnum, mjög ítarleg. Það er mjög mikil gagnasöfnun í gangi. En þá velti ég fyrir mér, ég hef spurt hv. þingmann svipaðrar spurningar: Hvað er nóg? Hvenær höfum við gengið of langt? Hvað þegar — ég segi þegar — Seðlabanki Íslands kemur með sína útgáfu af því hversu ofboðslega mikilvægt það er að hann hafi þessi gögn sem hann gæti nýtt mjög vel? Höldum því vel til haga. Hann gæti nýtt þessi gögn mjög vel. Hvað með fíkniefnavandann? Hvers vegna ekki að leita á fólki af handahófi. Fíkniefnavandinn er jú stór vandi, hann er almannavandi. Það eru ríkir almannahagsmunir í húfi, að sagt er. Ég spyr: Hvar stoppum við ef ekki hérna?