143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

dómstólar.

93. mál
[16:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessar umræður. Á síðasta ári var gerð breyting sem heimilar þetta sem hv. þingmaður nefnir hér þannig að það hefur verið rýmkað til í því að löglærðir fulltrúar geti tekið að sér ákveðin verkefni sem dómarar einir gátu áður sinnt. Þegar á síðasta kjörtímabili voru stigin skref í þá átt.

Síðan vek ég athygli á því að í gangi er vinna sem var líka sett í gang á síðasta kjörtímabili, réttarvörsluáætlun, sem Sigurður Tómas Magnússon leiðir og felur líka í sér endurskoðun á þáttum sem hér hafa verið til umræðu. Ég held að í þessu sambandi séu klárlega tækifæri til að vinna öðruvísi með verkefnið. Ég held þó ekki að það skapi tækifæri til þess að við getum á næsta ári séð fækkun dómara. Í framtíðinni er stefnt að því að fjöldinn verði sá sem hann var, 38 í stað 43. Þegar niðurstaða úr þeirri miklu vinnu sem nú er í gangi varðandi réttarvörsluáætlunina liggur fyrir, og auðvitað millidómstigið sem líka er í vinnslu, skoðum við hvaða framtíðarákvarðanir verða teknar.

Ég segi svipað og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, ég hef ekki sömu reynslu og þekkingu af og hef ekki unnið innan dómskerfisins líkt og þingmaðurinn sem hér talaði áðan þannig að það er vert að skoða það. Ég tel þó að það sem nefnt hefur verið hér í umræðunni geti ekki komið til framkvæmda alveg strax, en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér hvað það varðar.