143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[16:22]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg skýrt og kemur fram í fylgiskjalinu sem er umsögn frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu vegna málsins og líka í greinargerð með frumvarpinu að gert er ráð fyrir því að fjármagnið sem áður var sérstaklega eyrnamerkt talsmanni neytenda fylgir ekki beint inn í stofnunina. Það er verið að sameina verkefnin, það er alveg skýrt. Það er með Neytendastofu eins og öll önnur verkefni, hv. þingmaður, að gerð er hagræðingarkrafa sem gerir að verkum að í þessu felst ekki viðbótarframlag. Það skal vera alveg á hreinu og ekkert reynt að breiða yfir það. Við erum að fylgja eftir þeirri skýrslu og þeirri vinnu sem var unnin að mestu á síðasta kjörtímabili um að farsælla væri að málaflokknum yrði sinnt með þeim hætti að hann væri undir einni stofnun.

Það er alveg rétt að í fjárlögum er ekki gert ráð fyrir viðbótarframlagi til Neytendastofu. Vonandi tekst okkur það síðar enda verkefni næg en þarna er ekki gert ráð fyrir því að fjármagnið frá talsmanni neytenda fylgi inn í Neytendastofu. Það er engin dul dregin á það í frumvarpinu eða þeim gögnum sem fylgja með því.