143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

málefni RÚV.

[15:42]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég hyggst ræða málefni Ríkisútvarpsins. Í bandormi þeim sem fylgir fjárlagafrumvarpinu er boðuð frestun á þeirri ráðstöfun sem samþykkt var í lögum í vor að útvarpsgjald skyldi heilt og óskipt renna til útvarpsins frá og með árinu 2014. Í staðinn átti að renna 200 milljóna uppbót til stofnunarinnar, en nú í október boðaði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að hann hygðist leggja til við Alþingi að sú uppbót yrði sett í önnur verkefni. Á móti yrði hætt við hluta skerðingarinnar á auglýsingatekjum sem komið var á í nýjum lögum um Ríkisútvarpið í vor og átti að vera fyrsti áfanginn í að takmarka hlut Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og efla almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins.

Hæstv. ráðherra hefur enn ekki kynnt hvernig hann hyggst útfæra þessa hugmynd og væri áhugavert að heyra aðeins meira um það í þessari umræðu. Hins vegar er nokkuð ljóst að þetta eykur enn hagræðingarkröfu á Ríkisútvarpið.

Ég verð að minnast á það í þessari ræðu að þau lög sem samþykkt voru í vor voru afrakstur mikillar vinnu og samráðs. Um leið fór fram ítarleg umræða á tveimur þingum þar sem frumvarpið tók nokkrum breytingum. Mér þykir því dapurlegt að horfa upp á að núna sé verið að hluta í sundur þau lög sem samþykkt voru í vor með einungis fjórum mótatkvæðum, fyrst með breytingum á stjórnarskipan á sumarþingi, síðan þeirri hugmynd að útvarpsgjaldið skyldi ekki renna allt til Ríkisútvarpsins og nú boðuðum breytingum á þessum þætti laganna.

Ef við horfum hins vegar núna fram á við er mjög líklegt að Ríkisútvarpið muni þurfa að skera niður í rekstri sínum á næsta ári og ég vil nota þessa umræðu til að inna hæstv. ráðherra í fyrsta lagi eftir því hvort og þá hvenær hann muni leggja fram frumvarp um að afnema takmarkanir á auglýsingum á Ríkisútvarpinu, eins og hann hefur boðað, og hver sé þá stefna hæstv. ráðherra um þátttöku Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði almennt. Er hæstv. ráðherra þeirrar skoðunar að það sé æskilegt að Ríkisútvarpið sé virkur þátttakandi á auglýsingamarkaði og afli allt að þriðjungi tekna sinna með þeim hætti eins og núna er?

Ég spyr hæstv. ráðherra líka hvort honum sé kunnugt um hvernig Ríkisútvarpið hyggist mæta þessum breytingum í fjárhagsáætlun. Væntanlega hefur stjórn Ríkisútvarpsins, sú sem var kosin á Alþingi í sumar, kynnt ráðherra þær fyrirætlanir. Það væri áhugavert að heyra meira um það því að klárlega þurfa þær að samræmast bæði lögum og þjónustusamningi mennta- og menningarmálaráðuneytis við Ríkisútvarpið. Ég spyr þá enn fremur hæstv. ráðherra hvaða áherslur hann muni leggja í þjónustusamningi ráðuneytisins við Ríkisútvarpið, hvaða afstöðu þar megi til dæmis finna til starfsemi hljóðvarpsins, Rásar 1 og Rásar 2. Óumdeilanlega gegna þær mikilvægu hlutverki við að uppfylla menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins og væri áhugavert að heyra um framtíðarsýn hæstv. ráðherra á hljóðvarpið. Það er ekki laust við ónot vegna þeirra frétta sem berast nú um að ráðningu dagskrárstjóra útvarps hafi verið frestað beint ofan í ræðu verðlaunahafa Jónasar Hallgrímssonar, Jórunnar Sigurðardóttur, sem hæstv. ráðherra veitti þau verðlaun um helgina þar sem hún lýsti áhyggjum sínum af stöðu hljóðvarpsins og Rásar 1 og minnti á að ákvarðanir um það hvernig peningum er varið feli í sér gildismat og að það gildismat verði til út frá sýn okkar um það sem við notum þá til. Svo sagði hún, með leyfi forseta:

„Útvarpið stendur á tímamótum, tæknilega og samfélagslega. Það þarfnast sárlega skýrrar sýnar frá umboðsmönnum eigenda sinna, yfirstjórn mennta- og menningarmála og ráðamönnum útvarpsins sjálfs.“

Hún lauk þessari efnisgrein með því að segja að Rás 1 mætti ekki hverfa.

Það er ekki laust við að ég fyllist áhyggjum þegar ég heyri slíkar fregnir. Sjálf tel ég að hljóðvarpið eigi mjög bjarta framtíð og að hún geti þróast í auknu samstarfi við nýmiðlana, þ.e. netið. Það verður æ meira um að fólk hlusti á útvarpsefni á netinu, en þá skiptir máli að eitthvað sé til að hlusta á. Auðvitað má segja hið sama um sjónvarpsdagskrána. Það sem mestu skiptir er inntakið, efnið sjálft, að það uppfylli þær kröfur sem við gerum til almannaþjónustumiðils um menningarlegt og lýðræðislegt gildi í samfélaginu.

Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji það samrýmast anda laga um Ríkisútvarpið að aukin áhersla verði lögð á tekjuöflun í gegnum auglýsingar. Er ekki hættan sú að þar með verði lögð aukin áhersla á markaðs- og auglýsingadeild Ríkisútvarpsins í stað þeirra þátta sem við setjum efst í lögunum sem lúta að menningarhlutverkinu, lýðræðishlutverkinu, öryggishlutverkinu?

Þetta er stór umræða og ég tel miklu skipta að við á Alþingi ræðum þetta hlutverk því að það er hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sem leggur áherslurnar í þjónustusamningnum við stofnunina og það skiptir máli ef grípa þarf til hagræðingar á Ríkisútvarpinu að hún sé í takt við þær áherslur sem (Forseti hringir.) þar eru lagðar sem og í lögum um Ríkisútvarpið.