143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni 17. haustrall Hafrannsóknastofnunar Íslands, rall sem hefur verið farið í síðan 1996. Helstu markmið haustrallsins eru að styrkja mat á stofnstærð helstu nytjastofna á Íslandsmiðum. Auk þess er markmið verkefnisins að fá annað mat óháð aflagögnum úr vorrallinu á stofnstærð þeirra nytjastofna sem mældir eru þar. Þeir eru oftast talsvert umdeildir.

Ánægjulegt er að heildarvísitala þorsks hefur farið vaxandi síðustu sex árin og mældist nú sú hæsta síðan mælingar hófust. Er það í góðu samræmi við stofnmatið í vor. Lengdardreifing þorsks samanborið við mælingar síðan 1996 sýnir að meira er af þorski sem er 80 sentímetrar og stærri og kemur það einnig fram í aldursskiptum vísitölum sem sýna að 8–12 ára þorskur fer vaxandi. Þetta er árangur skilvirks aflamarkskerfis hjá okkur og aðgerða sem Hafrannsóknastofnun hefur beitt, t.d. með banni á netaveiðum með stórum riðli. Við sjáum strax að árangurinn lætur ekki á sér standa. Meðalþyngd þorsks eftir aldri hefur einnig aukist undanfarin ár í flestum aldurshópum.

Lélegir árgangar hafa verið undanfarið í ýsunni en þrátt fyrir það mælist meira af 25–35 sentímetra langri ýsu þannig að það eru aðeins bjartari horfur (Forseti hringir.) í henni.