143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil koma því aftur að sem við ræddum um, ég og hv. þingmaður, eftir framsöguræðu mína, að það er sjálfsagt að fara yfir tekjuáætlunina á árinu 2013 á grundvelli nýjustu upplýsinga og sú vinna er reyndar þegar hafin í fjármálaráðuneytinu.

Ég hygg hins vegar að það muni ekki hafa teljandi áhrif á heildarafkomu ársins, en að svo miklu leyti sem það kann að leiða til breytinga mun það birtast í betri tekjuafkomu. Kenningin um að hér séu ríkisstjórnin og fjármálaráðherrann að leggja sérstaklega á sig til þess að gera afkomu ársins verri en efni standa til er hins vegar alröng. Það sést best á því að á útgjaldahliðinni er dregið saman miðað við áformin eins og þau voru fyrir yfirstandandi ár. Eins og ég hef áður vikið að hefði fyrri ríkisstjórn verið í lófa lagið að láta bara öll útgjaldaáform ganga eftir eins og þau höfðu verið ákveðin ef markmiðið hefði verið að ná sem verstri afkomu fyrir ríkissjóð á yfirstandandi ári. Það var hins vegar aldrei markmiðið. Markmiðið var að reyna að lágmarka lántökur.

Niðurstaðan er 31 milljarðs halli, áætlaður, þrátt fyrir að gripið hafi verið í taumana vegna ófjármagnaðra útgjaldaáforma. Þar komu við sögu ýmis góð verkefni eins og þau sem hv. þingmaður hefur hér rakið, t.d. til fjárfestinga í nýsköpun og þróun — Tækniþróunarsjóður heldur samkvæmt frumvarpinu ekki öllu því sem hann hafði á fjárlögum ársins, en engu að síður eru umsvifin hjá þessum sjóðum sögulega þau mestu sem þau hafa verið. Við verðum að hafa í huga að slík hagvaxtarhvetjandi verkefni hefðu þá verið fjármögnuð (Forseti hringir.) með hagvaxtarletjandi aðgerðum eins og þeim að taka lán og reka ríkið með halla.