143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin þurfti ekkert að láta þessi fjárfestingaverkefni vera þarna inni, hún afþakkaði tekjurnar fyrir þau. Það er bein tenging þarna á milli af hálfu fyrri ríkisstjórnar og það er eðlilegt að sú tenging haldist óbreytt. Þegar menn afþakka tekjur fyrir verkefni eru það skýr skilaboð. Þess vegna er fjárfestingaáætlunin skorin niður. Það er ekki vegna þess að fráfarandi ríkisstjórn hafi skilið árið 2013 og verkefnin þar eftir ófjármögnuð.

Kemur það ekki fram í fjárlagafrumvarpinu að arðgreiðslur hafi skilað milli 15 og 16 milljörðum? Jú, þær eru milljarði lægri vegna þess að Landsvirkjun skilaði minni arði. Það var vegna þess að Landsvirkjun skilaði auknum tekjum og gjöldum til ríkisins á þessu ári sem nam að minnsta kosti þeirri upphæð, eða það var a.m.k. áætlunin þegar ég þekkti þar til, þannig að það kom inn með öðrum hætti.

Virðulegi forseti. Ég held að við ættum ekki að vera í þessu togi. Þegar ríkisstjórnin og ráðherrar hennar ákveða að réttlæta niðurskurð með því að segja að það sé 31 milljarða gat, eins og hæstv. ráðherra sagði hér áðan, þá verða þeir að segja alla söguna. Þeir verða líka að segja frá því að komið hafi jákvæðari niðurstaða út úr vaxtakostnaðinum. Menn þurfa að segja frá því að það geti verið að ný hagvaxtarspá, sem sýnir 2% en ekki 1,7% hagvöxt á þessu ári, geti haft jákvæð áhrif. Menn þurfa að segja alla söguna.

Þess vegna dettur manni í hug að menn séu svo áfram um að sýna fram á að það sé rétt sem forsætisráðherra sagði í vor til að réttlæta niðurskurð, án þess að hann hafi haft hugmynd um hvað hann var að fara út í. Þess vegna hvarflar það að manni, virðulegi forseti. Það er alltaf óvissu háð hverjar tekjurnar verða og hver vaxtakostnaðurinn og útgjaldaþróunin verða. Það þarf að allt að taka saman og menn þurfa að (Forseti hringir.) vera sanngjarnir og sýna heildarmyndina.