143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er nærtækt að taka boltann á lofti þar sem hann var hér í orðaskiptum áðan og ræða um stóru myndina. Ég held út af fyrir sig að það sé nokkuð ljóst að það hefði orðið mjög snúið að ná þeirri niðurstöðu sem fjárlög gerðu ráð fyrir í ljósi efnahagsþróunarinnar í landinu. Hún er óhagstæðari, hve mikið óhagstæðari vitum við ekki en þess sér vissulega að einhverju leyti stað og síðan liggja fyrir áföll ef svo verður eins og með Íbúðalánasjóð og gjaldfærslu á verulegum fjárframlögum til hans. Allt eru þetta hlutir sem menn verða að horfast í augu við og ræða eins og þeir eru.

Ég verð þó engu að síður að segja að ég á í miklum erfiðleikum með að fá alveg til að ganga upp misvísandi gögn sem mér sýnast liggja fyrir frá hinu opinbera og voga ég mér ekki að leggja til þeirrar umræðu sjálfur því að það yrði örugglega dæmt sem fyrirframlygi eins og nú er mjög í tísku, að bera upp á menn óorðnar lygar um óframkomna hluti. Eru það nýir tímar í stjórnmálum og hef ég aldrei upplifað þetta áður.

Ég er t.d. með greiðsluuppgjör ríkissjóðs frá janúar til september 2013, plögg sem ég er nokkuð vanur að lesa, var fastur áskrifandi að og las mánaðarlega, ég gleypti þau í mig um leið og þau komu á fyrsta degi í fjögur, fimm ár. Þar kemur fram óumdeilanlega að staðan er mun betri í ár en hún var í fyrra. Handbært fé frá rekstri batnar umtalsvert milli ára. Staðan þar er eftir níu mánuði neikvætt fé frá rekstri upp á 28 milljarða en var neikvæð um 42 milljarða á sama tíma 2012. Ef við lítum lengra aftur í tímann þá var þessi tala neikvæð upp á 60–80 milljarða árin 2009–2011, frá tæpum 60 og upp undir 80 milljarða þannig að hvað sem hver segir hefur staðan auðvitað stórbatnað að þessu leyti.

Svo kemur að tekjunum. Þar segir einfaldlega í gögnum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu sjálfu dagsettum 12. október 2013, með leyfi forseta:

„Innheimtar tekjur ríkissjóðs námu 382,8 milljörðum kr. á fyrstu níu mánuðum ársins sem er 5,3% aukning frá sama tímabili í fyrra. Niðurstaða janúar–september er 1,6 milljarðar kr. eða 0,4% yfir tekjuáætlun fjárlaga.“

Þrátt fyrir neikvæða hagspá frá Hagstofunni í júní og ýmsa óvissu þá rímar þetta ekki alveg. Svo kemur að vísu langur texti og í mánaðaryfirlitinu frá næsta mánuði á undan var langur texti frá ráðuneytinu um að þar sé kannski óvarlegt að treysta þessari tiltölulega góðu innheimtu og þar er einn stór óvissuþáttur sem jafnan er uppi í októbermánuði sem er álagning á lögaðila. Þá getur auðvitað skapast talsvert frávik í sköttum lögaðila vegna annars vegar staðgreiðslu og fyrirframgreiðslu sem á sér stað fram að álagningu. Engu að síður er þetta nú svona.

Þess vegna verð ég að segja að ég var svolítið hissa þegar ég skoðaði töfluna á bls. 72 í frumvarpinu þar sem engu að síður er gert ráð fyrir að skatttekjur, svo við tölum nú ekki um aðrar tekjur, verði 13,5 milljörðum lægri en áætlun fjárlaga gerir ráð fyrir. Það verður ansi snögg og hastarleg umbreyting til hins verra núna á síðustu mánuðum ársins ef þetta á að ganga eftir.

Varðandi arðgreiðslur og fjármögnun fjárfestingaráætlunar þá skulum við bara fara að koma þessum málum á hreint. Ef enginn annar verður til þess þá skal ég taka saman greinargerð um þetta mál. Það er alveg út í hött að ræða þetta svona út og suður án þess að styðjast við staðreyndir.

Fjármögnunin var byggð upp á þremur meginþáttum. Það voru viðbótartekjur af sérstökum veiðigjöldum sem væru umfram þá sirka 9 milljarða sem menn höfðu verið með inni í ríkisfjármálaáætlun og við gerðum ráð fyrir því að 4,5 milljarður gætu komið þarna í viðbótartekjur. Ef innheimtan hefði orðið á árinu eins og til stóð, ef ekki hefði verið gefið eftir núna á haustmánuðum, þá hefðu þær tekjur skilað því, þær hefðu gert það.

Í öðru lagi var gert ráð fyrir að samtals kæmi úr arðgreiðslum og sölu hlutafjár í fjármálastofnunum það sem upp á vantaði og þeim grunni var bætt inn í fjárlagafrumvarpið við 2. umr., 5,6 milljörðum kr. í viðbót í fjárfestingaráætlun og síðan tveimur verkefnum í viðbót við 3. umr.

Lítum á arðgreiðslurnar. Hvernig standa þær? Jú, þær skila nánast alveg því sem þeim var ætlað samkvæmt núverandi áætlun fjármálaráðuneytisins. Þær gefa ekki eftir nema um þá 1,2 milljarða sem Landsvirkjun á að borga minna. Þær verða um 15,2–15,3 milljarðar í staðinn fyrir rúmlega 16. Það bilar ekki, hæstv. fjármálaráðherra. Út af standa vissulega 4 milljarðar sem áætlaðir voru á eignasölu, það er rétt. En ríkissjóður hefur orðið af þeim tekjum upp á þá fjárhæð og rúmlega það vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar sjálfrar um að lækka veiðigjöld um 3,2 milljarða, um að lækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu um á sjötta hundrað millj. kr. sem hefðu skilað sér á þessu ári og síðan þýðir frystingin á ESB-viðræðunum það að á sjötta hundrað millj. kr. í IPA-tekjur skila sér ekki inn í fjárlögin og sumu af því verður að mæta með fjárveitingum úr ríkissjóði á móti, ef ekki núna þá á næsta ári, samanber tækjakaup Matvælastofnunar.

Nei, það eru þrír þættir sem skýra væntanlega fyrst og fremst frávikin. Það er minni hagvöxtur, og við skulum ekki mála þá mynd of dökkum litum þó að ég hafi vissulega verulegar áhyggjur af því að seinni hluti ársins sé ansi daufur. Það eru tilfallandi óreglulegir liðir eins og Íbúðalánasjóður. Því miður hefur það nú elt okkur flest árin að einhverjar eftirlegukindur frá hruninu dúkka upp í fjárlögum eða í ríkisreikningi þar sem enn verður að bókfæra töp vegna hrunsins. Í þriðja lagi er það tekjuafsal sem ríkisstjórnin ákvað sjálf í júní upp á á 5. milljarð kr. Það eru þrír stóru þættirnir í þessu.

Við skulum svo aðeins ræða pólitíkina i frumvarpinu og hvar ríkisstjórnin er á vegi stödd með þá hluti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég varð ofboðslega dapur þegar ég las fjáraukalagafrumvarpið vegna þess að ég hafði gengið út frá því að í aðalatriðum fengju fjárveitingar til rannsóknarþróunar og slíkra mála að vera í friði á þessu ári og ríkisstjórnin léti sér það nægja að fara með bredduna á loft á næsta ári. En það var eins og köld sturta að sjá að það er ekki nóg að stúta fjárfestingaráætluninni á næsta ári og þeirri uppbyggingu sem hún átti að standa fyrir, nei, farið er inn í fjárlög yfirstandandi árs og rifnir út allir þeir peningar sem ekki var búið að skuldbinda og nota. Áfallið sem rannsóknargeirinn verður fyrir, sem og nýsköpunargeirinn og áform um að fjárfesta í innviðum landsins, ekki síst í ferðaþjónustunni, er því enn þá stærra en maður átti von á vegna þess að teknir eru út stórir peningar strax á þessu ári. Þannig er Rannsóknasjóður skertur um 221 millj. á þessu ári, Tækniþróunarsjóður um 150 millj. á þessu ári og markáætlun er slegin af í heild sinni, sem vekur furðu að hægt sé að gera þegar eftir lifa bara öfáir mánuðir ársins. Ég hélt að það væri ekki hægt, ég hélt að það hlyti að vera búið að nýta þessa peninga eða a.m.k. skuldbinda þá eða ráðstafa þeim.

Hvað er þetta, frú forseti? Þetta eru 571 millj. sem skera á niður á þessu ári beint úr rannsóknarstarfseminni í landinu og fram undan er enn þá meiri og blóðugri niðurskurður á næsta ári. Það eru aldeilis skilaboð.

Framkvæmdasjóður ferðamála fær ekki frið á þessu ári. Hann er lækkaður um 127 millj. kr. Honum leggst að vísu til að tekjuaukinn af gistináttagjaldinu verður aðeins meiri en fjárlög gerðu ráð fyrir þannig að nettóniðurskurðurinn verður ekki alveg sá sami, en engu að síður er það mikið áfall, væntanlega með sama hugarfari.

Jú, jú, nú kemur hæstv. fjármálaráðherra með hina tvíþættu tuggu sem við kunnum öll: Fjárfestingaráætlun var ekki fjármögnuð, ég hef farið aðeins yfir það, og hins vegar það sem er alveg rétt, að við þurfum að velta hverri krónu fyrir okkur meðan halli er á ríkissjóði og útgjöld eru ávísun á frekari lántökur. En það skiptir máli hvað það er, hæstv. fjármálaráðherra, og hefur alltaf gert það. Í okkar aumustu fátækt á árinu 2009 réðumst við samt í tiltekin útgjöld til að reyna að leggja grunn að einhverri uppbyggingu í landinu. Þá hófum við t.d. markaðsátakið með ferðaþjónustunni. Á árinu 2010 buðum við ferðaþjónustunni upp á 300 millj. kr. skattfé, sem var auðvitað tekið að láni, ef hún kæmi með sömu fjárhæðir á móti svo við snerum vörn í sókn eftir gosið og til að reyna að veðja á vöxtinn í þessari grein. Hefur það ekki heldur betur gengið eftir? Það er því ekki hægt að leggja að jöfnu útgjöld sem eru markvisst sett beint í farveg sem byggja á landið upp og skila okkur verðmætum á komandi árum og eitthvað annað sem frekar má bíða. Ég geri gríðarlegan greinarmun á því. Þó að mér þyki það sárt að ríkisstjórnin ákveði að hægja á byggingu fangelsisins eða að fresta byggingu Stofnunar Árna Magnússonar, vegna þess að auðvitað getum við byggt þau hús síðar og björgumst einhver ár ef því skiptir með það sem fyrir er, þá endurheimtum við aldrei störf og nýsköpun sem tapast á þessu ári og hinu næsta vegna niðurskurðar þar. Þau verða einfaldlega ekki til, sá er grundvallarmunurinn á þessu.

Fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar var mjög vel ígrunduð að þessu leyti og það er mál til komið að menn leyfi henni að njóta sannmælis. Hvað er það, hæstv. fjármálaráðherra, sem var rangt í þeim áherslum að leggja aukið fé í rannsóknir, í nýsköpun, í stuðning við skapandi greinar, í uppbyggingu innviða í ferðaþjónustunni? Hvað var rangt við þær áherslur, hæstv. fjármálaráðherra? Hefur íhaldið einhverjar betri? Er það kannski það að auka fjárveitingar í fjáraukalögum til forsetaembættisins ofan í 32 millj. kr. hækkun sem embættið fékk í fjárlögum þessa árs? Eru það skilaboðin? Er það þannig sem verðmætin verða til? Eða búa til sérstaka skúffusjóði fyrir forsætisráðherra? Ég hef aldrei séð annað eins. Ég hélt að það væri til ráðstöfunarfé ráðherra upp á 4–6 millj kr. en forsætisráðherra á allt í einu að fá hundruð milljóna skúffusjóð sem hann hefur frjálst val um að sáldra í þau þjóðmenningarverkefni sem honum eru hugnanleg, að vísu undir fölsku flaggi því að það á að heita svo að þarna sitji eftir leifarnar af grænum áherslum í atvinnulífinu sem er að öðru leyti stútað í þessu fjáraukalagafrumvarpi og fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Þetta tel ég vera rangar áherslur hjá ríkisstjórn sem er í raun og veru, hvort sem hún hefur ætlað sér það meðvitað eða ekki, greinilega að kæla niður hagkerfið og senda skilaboð sem valda því að svartsýnin er að aukast og væntingarvísitalan er að hrynja, enda hefur ekkert farið af stað hjá þessari ríkisstjórn og eru nú komnir sjö mánuðir. Var það það sem boðað var fyrir kosningar? Átti ekki allt að fara hér á fulla ferð? Var þetta ekki allt saman aumingjaskapur okkar? Hvað hefur gerst þessa sjö mánuði annað en að senda stórskaðleg skilaboð af þessu tagi út í umhverfið? Ég er alveg sæmilega tengdur inn í nýsköpunar- og rannsóknargeirann og ég veit hvernig mórallinn er þar núna. Hann er lítið betri en á Ríkisútvarpinu. Það er bara þannig. Menn telja þetta vera áfall eftir þá bjartsýni og stemningu sem smátt og smátt skapaðist með skýrslunni um kortlagningu skapandi greina með litlu sjóðunum sem við settum á fót fyrir einstakar greinar, hönnunarsjóðunum, tónlistarútflutningssjóðnum o.s.frv., með því að stórauka féð í samkeppnissjóðina og markáætlun, með því að fjárfesta í innviðum ferðaþjónustunnar o.s.frv. Nú er bara búið að lemja í hausinn á þessu öllu með fallhamri. Það eru ekki skilaboðin sem við þurfum á að halda og þegar við bætist t.d. aumingjadómur ríkisstjórnarinnar í fæðingarorlofsmálum er ekki nema von að ungt fólk velti fyrir sér á Íslandi: Ja bíddu, er framtíðin hér? Með hverju er ríkisstjórnin að senda jákvæð, uppbyggileg, örvandi, hvetjandi skilaboð út í umhverfið á þessum fyrstu sjö mánuðum sínum? Ég bara finn það ekki, enda sýnist mér að þjóðin sé nokkuð sammála þegar það er mælt, hvort sem það er stuðningur við stjórnarflokkana, ríkisstjórnina eða væntingavísitala Gallups.

Menn hafa rætt um agaleysi og þau mál. Ég vil benda mönnum á að kíkja á bls. 78 í greinargerð frumvarpsins. Þar er gagngert súlurit sem ég er ákaflega ánægður með að mínir fyrrum samstarfsmenn í ráðuneytinu hafi sett inn í greinargerðina. Það segir mikla sögu. Það sýnir ruglið sem var í þessum málum á vitleysisárunum og alveg fram til 2008 og það sýnir að við höfum náð, þrátt fyrir niðurskurð og kreppu, mun betri árangri undanfarin fjögur ár. Frávikið í fjáraukalögum, að frátöldum óreglulegum liðum, er komið í 2–3% í staðinn fyrir 5–6%. Þetta eru bara tölulegar staðreyndir, aftur er vitnað í gögn frá ráðuneytinu sjálfu.

En ég tek undir það með hæstv. ráðherra að það er mikilvægt að við fáum nýju fjárreiðulögin og ég hef beðið eftir þeim með eftirvæntingu. Sagan segir okkur að við þurfum á meiri aga og (Forseti hringir.) ráðdeild að halda í þessum búskap okkar og vonandi getum við lagt grunn að því m.a. með styrktri löggjöf.