143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 181/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

74. mál
[16:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við að fá sendingu frá Brussel um hvorki meira né minna en húsgöngu- og fjarsölu sem aðallega hefur verið stunduð af íþróttafélögum og líknarfélögum. Mér vitanlega hafa ekki verið nein vandkvæði í kringum þessa sölu fram til þessa.

Ef þetta verður eins og mörg önnur mál munum við sjá hér hugmyndir frá þeim sem eiga að hafa eftirlit með þessu og fá stórauknar fjárheimildir til að geta haft almennilegt eftirlit með þessu sem engin ástæða er til að hafa eftirlit með. Ég hef áhyggjur af því og hvet hv. nefnd til að skoða þetta milli umræðna. Ég veit að það hefur verið farið vel yfir þetta, en (Gripið fram í.) af fenginni reynslu held ég að það sé mjög skynsamlegt að skoða þetta enn betur og tryggja að við setjum ekki einhverjar byrðar (Gripið fram í.) á skattgreiðendur. (Gripið fram í: … umræður.) (Gripið fram í: … þingsályktun.)