143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[17:13]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég hef verið svolítið tvístígandi í þessu máli en ég ætla að greiða atkvæði með því. En ég vil halda því til haga að samningurinn kveður á um að ríki skuli hafa samstarf á sviði umhverfisverndar og vinnumála og ríkið áréttar ríkið þær skuldbindingar sem settar eru fram í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Fara á fram reglubundið pólitískt samráð.

Ég velti fyrir mér hvort þetta séu bara orð á blaði eða hvort þeim fylgi einhver alvara. Það er alveg ljóst að stór hluti af þeim neytendavarningi sem við kaupum er framleiddur við aðstæður sem við mundum aldrei sætta okkur við. Þótt víða hafi orðið framfarir í þeim efnum þá gengur það allt of hægt. Ég mun spyrja utanríkisráðherra á kjörtímabilinu hvernig þessu samstarfi á sviði umhverfisverndar, vinnumála og mannréttinda miði og ítreka mikilvægi þess að þetta eru ekki bara orð á blaði. Hæstv. utanríkisráðherra getur því farið að hlakka til þessara orðaskipta á kjörtímabilinu.