143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

almenn hegningarlög.

109. mál
[17:16]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram hjá hv. talsmanni allsherjar- og menntamálanefndar var samstaða um málið að mestu leyti í nefndinni, þ.e. um þá breytingu sem lagt var upp með að bæta orðinu kynvitund inn í þennan lagabálk. En fram kom tillaga um að breyta ætti og taka út ákvæði um það að fangelsisrefsingar gætu komið til varðandi slík brot, þ.e. það yrði þá almenn breyting. Það var álit mitt og fleiri í nefndinni eða meiri hluta nefndarinnar að það væri ekki ástæða til að tengja þetta saman en mikill vilji fyrir því að taka málið sjálfstætt upp í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og skoða refsirammann þar. Ég heiti að vinna að því með nefndinni en treysti mér ekki til að greiða atkvæði með breytingartillögum frá Pírötum og mun greiða þar atkvæði á móti en um leið lýsa yfir vilja til þess að fara heildstætt yfir refsirammann hvað varðar þá þætti í löggjöfinni.