143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

staðgöngumæðrun, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[17:51]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir yfirferð hans og ræðu og þakka honum raunar líka fyrir það verklag sem hann kynnir hér til sögunnar, þ.e. að við fáum afhenta ræðu hans áður en umræðan á sér stað til þess að tryggja betur dýpt og málefnalega nálgun í henni. Ég tel það vera til sérstakrar fyrirmyndar.

Eins og komið hefur fram er þetta kannski eitt af flóknustu umfjöllunarefnum samtímans og ég tek undir þau sjónarmið sem koma fram hjá hæstv. ráðherra, að full ástæða sé til þess að nýtt Alþingi fái að koma að málinu í ljósi þess hversu umdeilanlegt og umdeilt það er og að um það sé fjallað sérstaklega á grundvelli þess nýja umboðs sem nýtt Alþingi hefur.

Hæstv. ráðherra fór sérstaklega yfir ákveðin álitamál, til að mynda takmarkaðar rannsóknir, flókna félagslega þætti, siðferðileg álitamál o.s.frv. Í ræðu sinni segir hann, með leyfi forseta:

„Eitt erfiðasta lögfræðilega og siðfræðilega úrlausnarefnið sem tengist staðgöngumæðrun er hvenær og hvernig eigi að ganga frá afsali á foreldrastöðu. Er hægt að gera bindandi samninga fyrir fæðingu barns?“ Nei, segir Alþingi í þinglegri meðferð árin 2011 og 2012.

Þetta er, virðulegur forseti, ekkert smámál. Það er ekkert smámál að tala um samninga í kringum manneskjur. Þar koma inn slík mannréttinda- og siðferðissjónarmið að því verður í raun ekki líkt við neitt annað sem við fjöllum um hér á hinu háa Alþingi.

Það er fyrir það fyrsta stórkostlega varasamt og vafasamt út frá jafnréttis- og kvenfrelsissjónarmiðum að það sé hægt að halda því fram að konur séu einhvers konar vettvangur réttinda annarra einstaklinga. Í umsögn Femínistafélags Íslands um þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun á fyrra þingi segir, með leyfi forseta:

„Í áratugi hafa femínistar og aðrir mannréttindasinnar barist fyrir því að konur séu ekki settar í þá stöðu að þurfa að gefa frá sér barn. Það er hins vegar veruleiki sem hefur blasað við fátækari og/eða félagslega lægra settum konum í árhundruð og gerir enn víða um heim. Tilkoma fóstureyðinga og uppbygging velferðarkerfisins hafa leitt til þess að fáar konur hér á landi þurfa að standa í þeim sporum. Sé staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni heimiluð með lögum er verið að heimila fólki að biðja konur, sem standa þeim nærri, um að ganga með barn til að gefa það frá sér.“

Það er stórkostlega varasamt að ganga út frá því yfir höfuð að það séu réttindi fólks að eignast börn með hvaða ráðum sem er og að þar með sé litið á konur sem eins konar vettvang fyrir annarra vilja, að konur, æxlunarfæri þeirra og líkami séu verkfæri í þeim tilgangi til að tryggja öðrum sín markmið.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð er femínískur flokkur og hefur ítrekað fjallað um þetta vandasama mál á sínum vettvangi. Hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé óráð. Flokkurinn sem slíkur hefur sett sig gegn staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Reynsla annarra þjóða hefur líka sýnt okkur að það er erfitt að koma í veg fyrir að þær aðstæður skapist að velgjörðarskyn breytist í hagnaðarsjónarmið. Það verður að hafa í huga að öllum meðgöngum og fæðingum geta fylgt óþægindi, kvalir og mikil áhætta. Það er því erfitt að sjá hvernig hægt er að koma í veg fyrir kúgun eða þvingun þegar kemur að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, sérstaklega þar sem staða kvenna er í raun og veru veikari en staða karla í öllu tilliti. Konur sem afhenda líkama sinn tímabundið til æxlunar fyrir markmið annarra eru í þeirri stöðu að vera í raun hlutgerðar.

Eins og komið hefur fram er staðan í fátækari ríkjum enn alvarlegri þar sem skortur er á regluverki, fátækt og veik staða kvenna gerir það að verkum að konur í stórum stíl ganga með börn fyrir barnlaus hjón af Vesturlöndum sem greiða fyrir það, oft þriðja aðila. Þar koma inn enn þá flóknari siðferðileg sjónarmið sem varða þá forréttindastöðu sem við erum í hér á Vesturlöndum gagnvart fátækari hlutum heimsins.

Virðulegur forseti. Mig langar í lok máls míns að vitna í grein eftir Kajsu Ekis Ekman, sem er blaðakona og femínisti. Drífa Snædal þýddi grein eftir hana undir heitinu Við erum ekki vélar, við erum ekki náttúruauðlindir. Þessi grein er fylgiskjal við umsögn Femínistafélags Íslands.

Í lok greinar Kajsu segir, með leyfi forseta:

„Er þetta einfalt mál? Nei. Látum við undan þrýstingi? Já, statt og stöðugt. Markmiðið á samt alltaf að vera hið sama, annars getum við jarðað jafnréttisbaráttuna strax. Er það ekki annars grunnurinn að jafnréttisbaráttunni, að konur eigi ekki að vera verkfæri í höndum annarra, hvort sem það eru feður, makar, Vatíkanið, einmana karlar, karlar með völd, valdalausir karlar eða ófrjóar konur? Við eigum að lifa kynlífi þegar við viljum sjálfar og eignast börn þegar við þess óskum. Við erum ekki vélar, við erum ekki náttúruauðlindir. Andstaðan við staðgöngumæðrun snýst einfaldlega um rétt okkar til að vera heilar manneskjur.“