143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í næsta dagskrármáli leggur hæstv. fjármálaráðherra til að greiddir verði peningar úr ríkissjóði algerlega án tillits til tekna og eigna fólks. (Gripið fram í: Það er alveg hárrétt.) Fólk sem greiðir auðlegðarskatt á hundruð milljóna í hreinni eign getur þar fengið framlög úr ríkissjóði þannig að málflutningurinn hangir ekki alveg saman frá einu dagskrármáli til annars hjá hæstv. ráðherra.

Þetta er ástæðan fyrir því að við erum í pólitík. Bjarna Benediktssyni finnst sanngjarnt að sá sem hefur 700 þús. kr. fái núna aukalega 600 þús. kr. skattafslátt en fólk á meðaltekjum, um 400 þús. kr., fái ekki nema liðlega 300 þús. kr. í skattafslátt frá ríkissjóði. Þetta finnst mér einfaldlega ósanngjarnt. Mér finnst að að lágmarki eigi báðir þessir aðilar, meðaltekjumaðurinn og hátekjumaðurinn, að fá sömu krónutölu í sérstakan skattafslátt vegna þessara aðgerða. Helst ætti meðal- og lágtekjufólkið að fá meira en þeir sem hærri hafa tekjurnar.

Ég vil líka spyrja hæstv. fjármálaráðherra um valfrelsi. Þegar síðasta ríkisstjórn heimilaði útgreiðslur úr séreignarsjóðum hafði fólk valfrelsi um ráðstöfun þess. Þá var í fjármálaráðuneytinu ráðherra fyrst frá Vinstri grænum og síðan frá Samfylkingunni en nú situr þar fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins og maður spyr: Hvers vegna er heimildin svona þröngt skilgreind? Af hverju má fólk bara ráðstafa sparnaði sínum inn á húsnæðislán? (Forseti hringir.) Alþýðusambandið hefur lagt til að fólk eigi að geta notað séreignarsparnaðinn til að fjárfesta í menntun. Á ekki fólk að hafa meira valfrelsi (Forseti hringir.) en ráðherrann er að bjóða upp á í þessum efnum?