143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rakið í frumvarpinu hvernig málið kemur við tekjur ríkis og sveitarfélaga en það er áætlað að tekjutapið fyrir ríkið kunni að verða á bilinu 16–22 milljarðar, að langmestu leyti í framtíðinni vegna þess að tekjuskattur hefði fallið til við úttöku séreignarsparnaðarins. Hið sama gildir fyrir sveitarfélögin, það tekjutap sem þar er áætlað eru tekjur sem hefðu komið til sögunnar í langri framtíð en á móti koma aukin áhrif af veltusköttum og þjónustugjöldum. Almennt er talið að tekjutapið verði minna en þessar tölur segja til um og að hin jákvæðu áhrif málsins vinni mögulega upp það tekjutap sem hér er um að ræða. Það er hins vegar ljóst að aðgerðin ógnar ekki fjárhagsstöðu ríkissjóðs í þeim skilningi að ríkissjóður þurfi að taka lán af þessum sökum.