143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni til glöggvunar er verið að ákveða að séreignarsparnaður fólks fari ekki inn á séreignarsparnaðarreikninga þess heldur renni hann fyrst til að greiða upp greiðslujöfnunarreikning sem bankar munu ekki gera kröfu um að verði greiddur fyrr en eftir einhverja áratugi. Það þýðir að fylla alla vasa fjár hjá fjármálastofnunum af peningum sem þær hafa ekki beðið um. Það eru engin efnisrök færð fyrir því af hverju á að byrja á að greiða upp greiðslujöfnunarreikninga, það er engin þörf á að gera það. Það er einungis verið að hygla fjármálafyrirtækjum. Þau hafa þolað það að fresta gjalddaga á þessum greiðslum og þau hafa verið látin kyngja því að þau þurfi að afskrifa það sem ekki fæst greitt í þrjú ár eftir að upphaflegum lánstíma lýkur. Og það er verið að hlífa þeim við þeirri kvöð af hálfu þessarar ríkisstjórnar.

Varðandi prósentureikninginn verð ég að svara því í seinna andsvari.