143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:40]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili alveg áhyggjum með hv. þingmanni af þeim hópi sem hún nefnir hér, en almennar aðgerðir munu aldrei hjálpa þeim hópi heldur sértækar aðgerðir. Það sem hv. þingmaður er þá að gagnrýna mig fyrir er að síðasta ríkisstjórn hafi ekki gert nógu mikið af sértækum aðgerðum. Það er alveg mögulegt að ræða það þannig.

Ég er ósammála hv. þingmanni um að tillögur ríkisstjórnarinnar núna bæti forsendubrestinn. Þær gera það alls ekki. Fullt af fólki mun sitja uppi með forsendubrestinn óbættan, fólk sem keypti á versta tíma eftir 2004, 2005 og fram að hruni. Það mun sitja eftir með óbættan forsendubrest en peningar munu fara úr ríkissjóði til fólks sem aldrei varð fyrir neinum forsendubresti, fólk sem keypti húsnæði kannski 1996 eða 1997 með lánum þar sem húsnæði hefur margfaldast í verði miklu meira en lánin hafa hækkað. Það fólk mun fá núna peningagjöf þó það hafi ekki orðið fyrir neinum forsendubresti. Það er ósanngjarnt, það er órökrétt og það er í hróplegu ósamræmi við umhyggjuna fyrir hagsmunum þess hóps sem hv. þingmaður talaði um og ég deili með henni.