143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:38]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er mjög hlynnt þessari séreignarsparnaðarleið, að fólk geti nýtt sér séreignarsparnaðinn núna. Margt ungt fólk býr í húsum sínum, er að ala upp börnin sín, en býr í mjög skuldsettum eignum, og mikilvægt er að það geti fundið leið til þess að minnka skuldir sínar þannig að það geti átt betra líf þegar það er með börn á framfæri og mikill framfærslukostnaður er vegna þess.

Varðandi almennu aðgerðina, sem við munum líklega ræða eftir helgina, greinir okkur hv. þingmann greinilega á þar. Mér finnst persónulega rétt að fjármálastofnanir sem áttu sinn þátt í því sem hér gerðist greiði til baka til heimilanna einhvern hluta af þeim skaða sem hér varð. Ég fagna því að bankaskatturinn hafi verið lagður á til að koma þessum hluta leiðréttingarinnar að.

Ég fagna því almennt séð að þessi skuldafrumvörp, bæði tvö, séu komin til umræðu í þinginu. Ég hefði gjarnan viljað ræða þau saman, þau hafa bæði kosti sem maður vill geta rætt saman hér í ræðum. En það bíður betri tíma að ræða almennu aðgerðina.