143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:31]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að mótmæla þeirri röksemdafærslu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að þetta kunni að leiða til þess að þeim fjölgi sem greiði í séreignarsjóð, eftir að hafa gert það í þrjú ár í þessari aðgerð. En af hverju hefur dregið úr greiðslum inn í séreignarsparnaðarkerfið? Það er af því að ráðstöfunartekjur heimilanna hafa dregist saman. Lífskjör hafa versnað á Íslandi, meðal annars vegna þess að samhliða hruni fjármálakerfisins hrundi íslenskur gjaldmiðill. Það er því dýrara fyrir fjölskyldufólk að lifa á Íslandi og þar af leiðandi hafa fleiri fjölskyldur ákveðið að þær gætu ekki ráðstafað þeim hluta sem fer í séreignarsparnaðinn til elliáranna og þyrftu að nýta það nú þegar í dag.

Auðvitað er þetta mjög lokkandi leið af því að í þessu er skattafsláttur, þarna er ríkið að afsala sér skatttekjum. Á sama tíma má gera ráð fyrir því að þegar þetta sama fólk verður eldra þá búi það kannski í skuldlausri eign en hafi úr engum séreignarsparnaði að moða og það getur skapað ýmis vandræði. Það verður þarna misræmi í þessu kerfi. Spurningin er hvort ekki sé of miklu til kostað þegar inni í þeim hópi sem fær þennan ríkulega afslátt er sá hópur í samfélaginu sem á mestar eignirnar og hefur hæstu tekjurnar.