143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef beitt mér mikið í skuldamálum heimila og skoðað þau vel en hef ekki enn fundið leiðina sem hentar öllum. Umræðan hefur verið alveg gríðarlega mikil og djúp, og ekki bara á hv. þingi heldur alls staðar, og enn hefur ekki komið fram leið sem hentar öllum. Ég hef ekki séð neina leið sem gerir að verkum að allir geti sagt: Já, þetta er leiðin, hvaða snillingur kom með hana? Það er bara ekki þannig, þetta er ekki fyrir alla. Fólk á til dæmis ekki að fara þessa leið ef það er svo gríðarlega skuldsett að þetta fer allt í hítina, ef það á ekki neina von í þessu. Þessi leið er ekki fyrir það fólk. Þessi leið mun hins vegar hjálpa mjög mörgum.

Íslenska lífeyrissjóðakerfið er þannig uppbyggt að upphaflega vorum við að borga 10% af heildartekjum, það hefur farið upp í 12–14% og jafnvel meira. Það er hugsunin að eftir 67 ára aldur, ætli það verði ekki 70 ára aldur eftir því sem líður á, lífaldurinn hækkar mjög — ef ég man rétt er meðalaldurinn nú um 85 ár en þegar menn fóru af stað með þetta var hann miklu lægri. Vonandi vinnur fólk líka lengur, ég vona í það minnsta að ég hafi tækifæri til þess. Það að fólk greiði ekki inn á séreignarsparnað — sem er viðbót og kemur í raun í stað þessa frjálsa sparnaðar sem fólk er með annars staðar, í löndum sem við berum okkur saman við er þetta kerfi ekki til — mun ekki kippa grundvellinum undan þessu kerfi, alls ekki.

Gefum okkur að allir fari í þetta og borgi í þetta í þrjú ár og greiði niður skuldirnar sínar. Það hjálpar fólki alveg gríðarlega mikið. Ég held að í þessu kerfi okkur sé byrðin á fólk, þegar við erum í fjölskyldustarfinu, hjá unga fólkinu og annað slíkt, of mikil. Við ættum að dreifa því aðeins öðruvísi. Besta leiðin til þess er að greiða niður skuldirnar okkar. Hvað þýðir ef þú greiðir niður skuldirnar? Þú þarft ekki að greiða jafn háar afborganir. Þar af leiðandi þarftu ekki jafn miklar ráðstöfunartekjur.

En er þetta fyrir alla? Leysir þetta allan vanda? Nei, að sjálfsögðu ekki. Það er engin slík leið. Mundi það leysa vanda margra? Já. Hefur þetta jákvæðar afleiðingar í för með sér? Já, án nokkurs vafa. Ég vona bara að við, hv. þingmenn, göngum frá því. Ef einhverjir agnúar eru á þessu máli þá þyrftum við bara að sníða þá af. En meginhugsunin er mjög góð og þetta er mjög gott mál.