143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún var athyglisverð og ekki síst í ljósi þess að hv. þingmaður er formaður velferðarnefndar Alþingis og hefur líka komið að vinnu við mótun framtíðarhúsnæðisstefnu í landinu. Það væri auðvitað áhugavert að heyra mat hv. þingmanns á því hvernig þetta rímar inn í þá vinnu eða þá hugsun sem menn voru þar að reyna að fikra sig áfram með. Erum við með þessu á einhvern hátt að leggja drög að heildstæðu húsnæðiskerfi til að taka á málum leigjenda eða annað í þeim dúr?

En ég tel þó hitt enn mikilvægara, það sem hv. þingmaður ræddi hér, um jöfnuð eða jafnræði, eða öllu heldur andhverfu þess, í þessum aðgerðum. Þess sakna ég sárlega að ekki skuli vera reiddar fram einhverjar sæmilega vandaðar félags- og efnahagslegar greiningar á þessum aðgerðum í heild sinni. Það er ekki tækt að ætla Alþingi að taka til afgreiðslu bara sisona einhverjar 150 milljarða aðgerðir, að vísu að verulegu leyti fjármagnaðar af fólki sjálfu. Þó er framlag ríkisins inn í þennan pakka, að mér sýnist, með beinum skatttekjum eða afsöluðum framtíðarskatttekjum, af stærðargráðunni 120 milljarðar. Þá er eins gott að lágmarksjafnræðissjónarmiða sé gætt þegar menn útdeila slíkum gæðum af opinberu skattfé eða senda reikninginn inn í framtíðina á skattgreiðendur eftir 15, 25 eða 30 ár; ef hv. þingmaður gæti farið aðeins betur yfir það hvaða hópar það eru sem lenda að mestu eða að öllu leyti utan garðs.

Það er augljóst að leigjendur, alla vega þeir sem ekki fá neina höfuðstólslækkun í húsnæðissamvinnufélögum og félagslegum leiguíbúðum, fá lítið sem ekkert. Eldra fólk sem hefur að mestu leyti greitt niður skuldir síns húsnæðis og verður ekki í séreignarsparnaði á næstu árum fær ekkert. Börn fá ekkert og tekjulægri fjölskyldurnar í landinu væntanlega mjög lítið.