143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:53]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ýmsar fjölskyldur fái lækkun og þar með lægri greiðslubyrði sem verður mjög jákvætt og þeim til góða. En eins og ég fór yfir í ræðu minni fá þeir hópar sem hafa hvað mest tekið á sig í kjölfar hrunsins, eldri borgarar og tekjulágar fjölskyldur sem reiða sig mjög á þjónustu velferðarkerfisins, minnst út úr þessum aðgerðum. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að ef við skoðum yfirlit yfir áunninn hagnað íbúðareigenda af fjárfestingu í húsnæði þá er hann umtalsverður nema árin 2005–2009. Það er hópurinn, fólk sem var að kaupa fyrstu eign á þeim tíma, sem við eigum að einbeita okkur að. Ef ég tek upp úr því grafi sem ég er með, fólk sem keypti eign um árið 2000, hefur hagnaðurinn af þeirri fjárfestingu verið um 23%.

Fólk á leigumarkaði — húsaleigan hefur hækkað langt umfram launavísitölu, sá hópur er ekki að fá neitt nema hann eigi eitthvað umfram til að byrja að leggja fyrir séreignarsparnað, til að fá skattafslátt, til að geta keypt sér húsnæði. Ég veit ekki hvort 1,5 millj. kr. eiga að duga til þess en það vita allir að það er ekki til útborgunar í húsnæði. Og það er mjög einkennilegt að í þessum útgjöldum sé til dæmis ekki gert ráð fyrir hækkun húsaleigubóta.