143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Til þess að ekki sé snúið út úr eða neinn vafi sé um skoðun manna þá er ég að sjálfsögðu fylgjandi því að það fólk sem getur auðveldlega og vill eiga sitt eigið húsnæði geri það, að sjálfsögðu, það er engin deila um það. Deilan stendur um glórulausa séreignarstefnu sem hefur birst okkur í því að menn lögðu niður félagslegt húsnæðislánakerfi á Íslandi og tekjulágu fólki, ungu fólki, er ýtt út í þann eina valkost að reyna að kljúfa það að kaupa sitt húsnæði sjálft.

Ég hef talað við mjög marga í svonefndum lánsveðshópi. Margir í þeim hópi voru ungt fólk að koma heim frá námi á árunum 2006–2008. Hvaða valkostur stóð því til boða í húsnæðismálum á höfuðborgarsvæðinu annar en að reyna að kaupa íbúð á uppsprengdu verði sem oft leiddi til þess að það varð að fá lánað veð hjá foreldrum sínum? Það voru engir aðrir valkostir í boði. Þannig er það.

Það er út af fyrir sig rétt hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að Sjálfstæðisflokkurinn er miklu nær því að efna í grófum dráttum og aðalatriðum og efnislega það sem hann sagði fyrir kosningar. Það er rétt, rétt skal vera rétt. Það var talað um séreignarsparnað og skattafslátt. En Framsóknarflokkurinn er auðvitað úti í hafsauga. Það er þannig.

Síðan að lokum um sérstöku vaxtabæturnar af því menn tala alltaf um að aðstoða heimilin, aðstoða heimilin við að lækka sínar skuldir. Aðstoða heimilin. Já, en hvað er hátt hlutfall heimila í landinu sem mun í raun og veru að lokum njóta þessarar aðgerðar í einhverjum mæli? Það er miklu, miklu lægra en menn reyndu að telja þjóðinni trú um, t.d. í Hörpu í nóvember. Það blasir við. Sérstaka vaxtaniðurgreiðslan gekk til yfir 90 þús. heimila í landinu og hún var ekki tekjutengd, hún var bara skert við mjög há eignarmörk. (Forseti hringir.) Það er stærsta almenna aðgerðin í þessum (Forseti hringir.) efnum hingað til.