143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:33]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Hann minntist á að við hefðum kannski átt að vara við þessum aðgerðum og vera duglegri í því fyrir kosningar. Það er kannski eitthvað til í því. Við töluðum, held ég reyndar, frekar skýrt í þessu máli sem og vinstri grænir og ekki hlutum við góða kosningu fyrir vikið, enda var stemningin ekki alveg þar. Mér er þó minnisstætt á kosningafundi fyrir austan að ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon settum spurningarmerki við skuldaniðurfellingarhugmyndirnar og veltum því upp hvort verið væri í rauninni að flytja fjármagn frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins vegna þess að maður ímyndar sér að stór hluti þessara niðurfellinga muni renna til þeirra sem eru skuldsettastir og eiga dýrasta húsnæðið og það er eðli málsins samkvæmt fólk á höfuðborgarsvæðinu. Við hlutum mikið klapp fyrir, man ég, þannig að einhverjir voru svo sem á þeirri línu en vilji margra kjósenda var þó skýr. Hins vegar var alltaf talað, og ég skildi það þannig, eins og þessir peningar yrðu sendir frá tunglinu, þetta átti ekki að koma ríkissjóði neitt við. Mér fannst líka svolítið illa gert þegar var talað eins og þetta væru ekki skatttekjur.

Ég held að við séum sammála um séreignarstefnuna sem er ekki af hinu góða. Ég vil bara spyrja hv. þingmann hvort hann telji að við eigum að veita meiri pening í leigumarkaðinn, sérstaklega í ljósi þess að fyrri ríkisstjórn setti um 82 milljarða í sértækar aðgerðir, fyrir utan það sem bankarnir gerðu, og á árunum 2010–2014 voru settir um 66 milljarðar í vaxtabætur. Það er nú þegar búið að gera heilmikið. Væri þeim 70 milljörðum sem hér um ræðir og svo 80 milljörðum (Forseti hringir.) í skuldaniðurfellinguna betur (Forseti hringir.) varið í aðra hluti, eins og styrkingu leigumarkaðarins? (Forseti hringir.)