143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[12:51]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði einmitt í ræðu minni að oft væri þetta þannig að við töluðum um að við ætluðum að efla embættin og staðina. Þannig pakkaði maður inn umgjörðinni og ætlaði að róa landið en innihaldið reyndist svo minna þegar á reyndi. Jafnvel ákvarðanir í gegnum fjárlög og fjárlaganefndir hafa orðið til þess að menn hafa flutt út verkefni en einu til tveimur árum seinna hafa þau verið tekin til baka. Þess vegna sagði ég: Sporin hræða hvað þetta varðar.

Þegar við erum að skoða þjónustu, hvort sem er hjá ríki eða sveitarfélögum, erum við að tala um jafngild stjórnsýslustig sem þurfa að geta talað saman og þurfa að geta leyst hluti í sameiningu. Ábyrgðin er gríðarlega mikil hjá samtökum sveitarfélaga fyrir viðkomandi svæði. Það eru auðvitað erfiðleikar þar í sambandi við stærð sveitarfélaga og sjónarmiðin hvað það varðar. Það er varla tími til þess að fara yfir það hvernig þetta hefur verið að gerast.

Það er eitt sem var gert sem menn hefðu átt að fylgja betur eftir og þurfa að fylgja betur eftir, það var sóknaráætlun. Sóknaráætlunin var tilraun til að skilgreina umdæmi í landinu, halda utan um þau þannig að það væru sambærileg umdæmi, hvort sem það er heilsugæsla, löggæsla eða annað slíkt og þjónusta að einhverju leyti, menn sameinuðu þar undir allar áætlanir, reyndu að samræma þær til að tryggja að hægt væri að veita heildstæða þjónustu. Þetta hefur ekki tekist að fullu, það var ágreiningur um þessi umdæmi. Menn hafa síðan brotið sig út úr þessum umdæmum hvort sem er í málefnum fatlaðra eða í heilbrigðisgeiranum. Við erum í sjálfu sér að gera það hér með því að halda Vestmannaeyjum utan við Suðurlandsumdæmi o.s.frv., þannig að oft kemur svo fjölbreytnin upp og togstreitan og ágreiningurinn, enda er kannski aldrei hægt að setja þetta svona alveg inn í kassa og form. En ég held að það eigi að reyna að þróa þá vinnu áfram og að þróa þann vettvang sem er um samstarf sveitarfélaga og ríkis í tengslum við það, eins og gert var og átti að gera í menningarsamningum sem menn eru svo að klúðra. Ég held að menn hafi bara ekkert skilið, núverandi ríkisstjórn, hvað þetta snerist um. En þessari vinnu þarf að halda áfram.