143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

lekinn í innanríkisráðuneytinu.

[15:16]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að ítreka fyrirspurn hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur vegna viðbragða hæstv. innanríkisráðherra. Það er enginn að biðja um upplýsingar um það hvar mál stendur gagnvart blaðamönnum úti í bæ. Það liggur hins vegar fyrir eftir dóm Hæstaréttar í dag að til er starfsmaður í ráðuneytinu, starfsmaður B, sem hringdi í tiltekna fjölmiðla rétt áður en fréttir birtust byggðar á minnisblaðinu.

Spurning hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur var einföld: Er starfsmaður B ráðherrann eða pólitískir aðstoðarmenn sem ráðherrann ber ábyrgð á? Það er fullkomlega eðlilegt að við fáum svör við því hér.

Ráðherranum er í lófa lagið að veita þau svör. Hann ber pólitíska ábyrgð gagnvart Alþingi Íslendinga á framgöngu sinni í þessu máli og á að svara þessu skýrt. Það er enginn að biðja um eitthvað sem er hulið á bak við leynd lögreglurannsóknar, það er verið að biðja um einfaldar skýringar á einföldum staðreyndum. (Forseti hringir.) Er starfsmaður B ráðherrann eða pólitískir aðstoðarmenn ráðherrans?