144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

eignarhald Íbúðalánasjóðs á íbúðum á Suðurnesjum.

[15:08]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir fyrirspurnina. Já, ég tók eftir þessari ályktun frá sveitarfélögunum á Suðurnesjum. Það er alveg rétt, sem þar kemur fram, að hæsta hlutfall af einstöku lánssvæðum af eignum, íbúðum, sem Íbúðalánasjóður hefur yfirtekið er á Suðurnesjum. Staðan er sú í dag að þar eru um 500 íbúðir í útleigu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa í huga að á sama tíma, held ég að hægt sé að fullyrða, er Íbúðalánasjóður væntanlega langstærsta leigufélagið á svæðinu eða með þeim allra stærstu. Ef bera ætti saman einstök sveitarfélög kom í ljós eftir fund með Sandgerðingum að Íbúðalánasjóður væri með þrefalt fleiri leiguíbúðir í Sandgerði en sveitarfélagið sjálft, hvað varðar félagslegt húsnæði.

Ég fundaði, fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, með þáverandi meiri hluta og einum fulltrúa minni hluta, sem sitja nú í minni hluta í Reykjanesbæ. Þar ræddum við hugmyndir þeirra um hvernig hægt væri að nýta húsnæði og aðstoða sveitarfélögin, sérstaklega við að hjálpa því fólki sem er í mestum fjárhagsvanda og getur ekki útvegað sér húsnæði sjálft. Ég hef hins vegar ekki heyrt frá nýjum meiri hluta í Reykjanesbæ frá því að hann var kosinn til valda, og væri óskandi að fulltrúarnir hefðu samband því að það er greinilegt að menn hafa áhyggjur af þessu ef marka má ályktanir þar um. Ég hef haft áhyggjur af þessu.

Þetta hefur náttúrlega endurspeglað erfiðleikana sem bæði ég og hv. þingmaður þekkjum ágætlega, sem hafa verið sérstaklega á Suðurnesjunum. (Forseti hringir.) Það er afstaða mín að þetta sé þess háttar vandamál, alveg eins og kom fram í ályktun sveitarstjórnarmanna, að við verðum að vinna þetta saman.