144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[16:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skildi alls ekki þetta seinna andsvar hv. þingmanns enda var erindi mitt hingað í ræðustól að láta það koma skýrt fram að fram hefði komið afgerandi fyrirheit í nefndarumræðum um málið. Umræður hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar báru það ekki með sér að nein slík fyrirheit hefðu verið gefin. Þau voru gefin og ég tek þau alvarlega, ég treysti ráðherranum.

Það er hins vegar þannig að þetta er ekki ákvörðunaratriði ráðherrans eins. Þá væri auðvelt að skamma hann fyrir að koma ekki með þetta. Þetta er samningsatriði enda lýtur þetta að umsömdum kjörum opinberra starfsmanna. Eðli málsins samkvæmt getur það tekið einhvern tíma að ná samkomulagi en ég vil trúa því að ráðherrann sé að vinna að málinu og hafi áhuga á að koma því í höfn.

Það skiptir miklu að það liggi fyrir að við samþykkjum þetta mál í góðri trú á að verið sé að vinna með virkum hætti að úrlausn þess og það er ekkert sem bendir til annars en það sé það sem verið er að gera af hálfu ráðuneytisins. Það er mjög mikilvægt að það komi skýrt fram í umræðunni öfugt við það sem mátti heyra á máli hv. þingmanna Guðlaugs Þórðarsonar og Vilhjálms Bjarnasonar hér áðan.