144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

merkingar og upplýsingaskylda varðandi orkunotkun heimilistækja.

99. mál
[16:10]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég get glatt hv. þm. Frosta Sigurjónsson með því að ég er að koma með annað mjög keimlíkt mál hér, en það er breyting á öðrum lögum. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 72/1994, um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja.

Markmið frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/30/ESB um ramma til að setja fram kröfur varðandi merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum. Núgildandi lög um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja byggja á forvera tilskipunar 2010/30/ESB sem er tilskipun nr. 92/75/EBE.

Meginmarkmið tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins er að stuðla að því að orka sé notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti með því að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um orkunotkun vara sem nýta orku. Tilskipunin leggur skyldur á herðar þess aðila sem markaðssetur vöru að láta neytendum í té upplýsingar um orkunotkun og orkunýtni vöru sem seld er eða leigð. Tilskipuninni er þannig ætlað að tryggja samræmdar reglur og frjálst flæði slíkra vara á innri markað Evrópusambandsins og að vörunni fylgi viðeigandi upplýsingar til hagræðingar fyrir neytendur. Bæði er því um neytendamál og orkumál að ræða.

Efnislega eru þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu tvíþættar. Fyrra atriðið snýr að gildissviði laganna. Núgildandi lög gilda um vörur sem nota orku en verði frumvarpið að lögum munu lögin gilda um vörur sem eru orkutengdar, „energy related products“. Með því er gildissvið laganna víðtækara. Með orkutengdum vörum er þannig til dæmis átt við glugga eða einangrunarefni þar sem með betri hönnun má ná fram orkusparnaði.

Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að eftirlit með framkvæmd laganna verði alfarið í höndum á Mannvirkjastofnun. Er þetta á sama hátt og í frumvarpinu sem við ræddum hér áður til samræmis við nýleg lög um breytingu á ýmsum lagaákvæðum vegna færslu eftirlits með rafföngum frá Neytendastofu til Mannvirkjastofnunar. Með frumvarpinu eru Mannvirkjastofnun fengin úrræði í samræmi við þau úrræði sem hún hefur í öðrum lögum til að tryggja að eftirlitið fullnægi kröfum.

Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi frekar en núgildandi lög mikil áhrif á íslenska framleiðendur þar sem framleiðsla fárra innlendra framleiðenda fellur undir ákvæði frumvarpsins. Hins vegar hefur frumvarpið áhrif á neytendur þar sem það leggur ákveðnar kröfur á framleiðendur á EES-svæðinu varðandi upplýsingaskyldu um orkunotkun viðkomandi vöru.

Þetta frumvarp er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samstarfi við Mannvirkjastofnun sem fer með markaðseftirlit og framkvæmd laga nr. 72/1994 auk Neytendastofu sem fór áður með málaflokkinn.

Í kostnaðarumsögn við frumvarpið kemur fram að verði frumvarpið að lögum er ekki ráðgert að það hafi í för með sér aukningu í útgjöldum ríkissjóðs þó svo að það kunni að fela í sér einhverjar auknar eftirlitsskyldur af hálfu Mannvirkjastofnunar.

Herra forseti. — Fyrirgefið, frú, nei, herra forseti. Já, þetta sýndist mér áðan. Með frumvarpi þessu er fyrst og fremst um að ræða ákveðna útvíkkun á gildissviði núverandi laga sem og breytingu á hlutverki Mannvirkjastofnunar hvað eftirlit með þeim lögum varðar. Til upplýsingar er einnig rétt að benda á að í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið hvílir skylda á íslenskum stjórnvöldum til að innleiða umrædda tilskipun í íslensk lög og hefur Eftirlitsstofnun EFTA sent íslenskum stjórnvöldum rökstutt álit, svokallaða „reasoned opinion“, þar sem gerð er athugasemd við að ekki sé búið að innleiða tilskipunina. Að óbreyttu mun það mál fara fyrir EFTA-dómstólinn ef innleiðing dregst frekar á langinn.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og til 2. umr.