144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

merkingar og upplýsingaskylda varðandi orkunotkun heimilistækja.

99. mál
[16:39]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er Evrópusinni en ég geri mér alveg grein fyrir hvernig staðan er. Ísland er utan Evrópusambandsins og það eru ekki líkur á því að við hoppum þangað inn meðan núverandi ríkisstjórn er við völd. Þá hugsa ég sem góður borgari: Hvernig getum við þá komið árum okkar best fyrir borð til að hafa áhrif?

Ég er þeirrar skoðunar að sterkasta leiðin sé sú að þingflokkarnir hefðu fulltrúa í samsvarandi pólitískum hópum á Evrópuþinginu. Þá ætti þingið einfaldlega að sjá til þess að menn gætu það og veita fjármagn til þess, ekki með þeim hætti sem hæstv. ráðherra talar hér um að flokkarnir, sem eru allir skítblankir og meira og minna utanveltu fjárhagslega, kosti slíkt. Það eru engin sambönd, það eru engin tengsl ræktuð þannig.

Ég held hins vegar að ástæðan fyrir því að menn hafa aldrei hugsað þessa hugsun til enda sé sú — og ég vona að hv. þm. Frosti Sigurjónsson misvirði það ekki við mig og telji að ég sé að gera honum upp skoðanir en ég tek hann sem dæmi — þá finnist mönnum eins og hv. þingmanni að ef við færum þessa leið værum við komin með eina tá inn í Evrópusambandið. Menn mega ekki til þess hugsa. Þeir þora sem sagt ekki að hugsa þá hugsun til enda og taka þessa ákvörðun. En ég held að þetta væri best fyrir íslenska hagsmuni í núverandi stöðu. Það er mín skoðun.

Hæstv. ráðherra segir réttilega að hér töluðu menn um þetta síðasta kjörtímabil í utanríkismálanefnd. Herra trúr, ég sat í nefnd undir forustu Björns Bjarnasonar þar sem ég kom fram með þessa tillögu. Mig minnir að hún hafi verið partur af Evrópuskýrslunni. Hér var samþykkt ályktun að tillögu núverandi hæstv. forseta Einars K. Guðfinnssonar. Hefur eitthvað gerst í því? Nei, ekki neitt, því miður. Það er eins og menn hafi ekki trú á því að hægt sé að láta reyna til þrautar að hafa áhrif þarna. Ég held að það sé hægt með einni aðferð en bara einni, ef um stóran hlut er að ræða. Það er sú sem ég reifaði hérna áðan.