144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að rifja það upp að á viðskiptaþingi í febrúar síðastliðnum var erlendur fyrirlesari að halda ræðu. Hann spurði 500 manna sal: Hefur Ísland eitthvert plan? Þrír réttu upp hönd. Það voru allt ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem sátu á fremsta bekk. Þeir upplifðu að það væri plan en enginn annar í salnum upplifði að það væri nokkurt plan um framtíð Íslands.

Það er vert að rifja þetta upp í ljósi atburðanna sem urðu hér í gær þegar ríkisstjórnarflokkarnir gengu fram og rufu alla möguleika á sátt um vernd og nýtingu náttúruauðlinda í landinu. Það er skrýtið að ríkisstjórnarflokkarnir líti á það sem markmið í sjálfu sér að rjúfa þessa sátt og setja í uppnám (Gripið fram í.) þær leikreglur sem við höfum þó búið til (Gripið fram í.) á síðustu áratugum, meginreglur um sambúð nýtingar og verndar.

Þessi átakasækni ríkisstjórnarinnar sést líka víðar. Hún sést í fjárlagafrumvarpinu þar sem gengið er fram einhliða með ýmsum aðgerðum gegn umsömdum réttindum. Þannig er til dæmis lagt upp með að stytta réttindi fólks til atvinnuleysisbóta einhliða, sem eru umsamin réttindi og hafa verið það á vinnumarkaði frá því að þeim var komið á í mjólkurverkfallinu mikla 1955. Það er þessi átakasækni og skortur á heildarsýn sem er orðið verulegt áhyggjuefni.

Eru átök sjálfstætt markmið fyrir ríkisstjórnina? Hver er tilgangurinn með því að efna til ófriðar um alla hluti? Ég spyr: Er ekkert mál, enginn málaflokkur svo mikilvægur að rétt sé að skapa um hann víðtæka samstöðu? Ég held að það skipti miklu máli að ríkisstjórnin reyni að axla þessa ábyrgð. Í öllu falli þurfum við ríkisstjórn sem ræður við að skapa almenna samstöðu um meginlínur í íslensku samfélagi.