144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

366. mál
[16:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta frumvarp lætur kannski ekki mikið yfir sér en það tengist þó máli sem er býsna stórt, sem er útkoma sveitarfélaganna út úr skuldabixaðgerðunum. Ég vil gera það hérna að umtalsefni. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa mörg orð um efni frumvarpsins að öðru leyti, ekkert nema gott um það að segja að menn fjölgi í einhverri ráðgjafarnefnd og sömuleiðis held ég að það sé sanngjarnt að milda aðeins áhrifin af hækkuðu fasteignamati. Sveitarfélögin sjálf eru sæmilega sátt við það að taka þann tekjuauka inn í áföngum, þá geri ég að sjálfsögðu ekki athugasemdir við það.

Það kemur mér svolítið á óvart að nefndin geri þessar breytingar á frumvarpinu varðandi útdeilingu fjármuna sem til jöfnunarsjóðs eiga lögum samkvæmt að renna og menn beina þar sérstaklega sjónum að tekjuauka jöfnunarsjóðs út á 2,12% hlutdeild í hækkuðum bankaskatti. Nú er það auðvitað þannig að það eru tekjur jöfnunarsjóðs eins og hverjar aðrar tekjur, en ríkisstjórnin hefur valið að tengja þá innheimtu skatttekna við kostnað vegna skuldaniðurfærslunnar og hér er það gert með sama hætti þegar kemur að sveitarfélögunum.

Nú liggur það auðvitað alveg fyrir að þessar tölur sem reiddar voru hér fram og eru enn um kostnað sveitarfélaganna eru náttúrlega fjarri öllu lagi þegar tekið er tillit til gríðarlega tapaðra framtíðartekna sveitarfélaganna vegna séreignarsparnaðarleiðarinnar. Hér er eingöngu verið að mæla minni útsvarstekjur vegna þess að fleiri greiða hærri fjárhæðir inn í séreignarsparnað og minna kemur til skattlagningar með venjulegum hætti og hlutdeild sveitarfélaganna í þeim hluta launaskattsins sem væri útsvar eru tapaðar tekjur á þessum þremur árum vegna þess beint, um 4 milljarðar kr. eða svo. (Gripið fram í.)Sú áætlun kann að vera nálægt lagi miðað við áætlað umfang af eingreiðslum í séreignarsparnaðarkerfið af þessum sökum.

Þá er algerlega ótalið framtíðartekjutap sveitarfélaganna vegna þess að að öðrum kosti hefðu stórir hlutar eða verulegur hluti þessara fjármuna farið óskattaður inn í séreignarsparnað, ávaxtast þar í 10, 15, 20 ár og komið svo til útgreiðslu og borið fullan tekjuskatt og útsvar. Það er nokkuð ljóst að kostnaður sveitarfélaganna í heild, núvirtur að teknu tilliti til þessarar ávöxtunar, er af stærðargráðunni 20 milljarðar kr. Þá útreikninga fékk ég staðfesta af fjármála- og efnahagsráðuneytinu í fyrra þegar við vorum að glíma við að átta okkur á kostnaðinum við skuldalækkunaraðgerðirnar í heild, kostnaður ríkisins liggur nær 40 milljörðum, eru reyndar rúmir 40 milljarðar reiknaðir með sama hætti. Útreikningar ríkisstjórnarinnar sem fylgdu stjórnarfrumvarpinu um skuldamálin voru hins vegar án nokkurra tilrauna til þess að meta þennan kostnað og í raun og veru var hann beinlínis falinn, þ.e. því var einfaldlega sleppt að vekja athygli manna á því að það er svona sem þetta virkar í reynd, að ríki og sveitarfélög verða af gríðarlega miklum framtíðartekjum, þær tekjur dreifast að vísu á áratugabil en það er þarna samt. Þessar tekjur munu ekki skila sér í kassann hjá sveitarfélögum og ríkinu á komandi áratugum vegna þess að þær verða aldrei til.

Það er annað sem ég tel ástæðu til að nefna í þessu sambandi og hitt er svo ákvörðun nefndarinnar að hverfa frá hugmynd frumvarpsins um að útdeila þessum auknu tekjum, sem áætlað er að gætu orðið um 2,4 milljarðar kr. á þessu tímabili frá miðju ári 2014 til og með ársins 2017, á grundvelli hlutdeildar sveitarfélaganna í útsvarstekjum á landsvísu, þ.e. að þetta verði eins og álag á útsvarsstofn hvers sveitarfélags, en í staðinn er nefndin hér með breytingartillögu sem gengur út á það að henda þessu út sem þýðir að þetta fara sem venjubundnar tekjur inn í jöfnunarsjóð og útdeilast samkvæmt hinum almennu leikreglum hans. Nú er það að sjálfsögðu sjónarmið að líta svo á að þessum fjármunum sé betur varið inn í hið almenna tekjujöfnunarkerfi milli sveitarfélaganna. Það getur verið fullgilt sjónarmið. Ef hugsunin er hins vegar samt sem áður sú að þetta eigi að bæta sveitarfélögunum áætlað tekjutap vegna séreignarsparnaðarleiðarinnar þá er dálítið sérkennilegt að horfa algerlega fram hjá því hvernig það tekjutap kemur niður, sem getur t.d. leitt til þess að stærsta sveitarfélag landsins, Reykjavík, sem ber væntanlega hátt í 40% af þessu tekjutapi, fær sáralítið með þessari aðgerð.

Ég spyr líka um það: Hvernig var háttað samskiptum nefndarinnar við sveitarfélögin eða samtök sveitarfélaga? Nú kann að vera að þau séu ekki endilega algerlega þannig mönnuð, þ.e. stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, að öll sjónarmið fái að fljóta með þegar þeir tala fyrir hönd sveitarfélaganna, það þarf auðvitað alltaf að hafa þann fyrirvara á eða hafa það í huga. En ég hef ástæðu til að ætla að stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga sé ekki alveg hrifin af þessari ráðstöfun og er hér með í höndunum nýlegt bréf frá þeim þar sem þeir hafa á fundi sínum 12. desember síðastliðinn gengið frá samþykkt þar sem þeir leggja mikla áherslu á að frumvarpið nái fram að ganga óbreytt á Alþingi. Það er hin formlega afstaða sveitarfélaganna í landinu, því að það er enginn annar sem getur talað fyrir þau í heild nema sambandið. Ég hlýt auðvitað að inna formann nefndarinnar eftir því hvernig þetta mál stendur gagnvart samskiptum nefndarinnar eða Alþingis við sveitarfélög. Er þá sem sagt verið að leggja til að afgreiða þetta hérna í lóðbeinni andstöðu við vilja Sambands íslenskra sveitarfélaga og eftir atvikum „sveitarfélaganna í landinu“. Mér finnst svolítið sérkennilegt, herra forseti, ef þetta mál ætti að fara nánast þegjandi og hljóðalaust og umræðulaust í gegn án þess að þetta yrði rætt.

Ég tek það fram að ég er ekkert endilega með algerlega uppgerðan huga til þess hvor leiðin sé betri eða hvort þarna hefði kannski átt að fara bil beggja að einhverju leyti, nota hluta þessa fjármuna til tekjujöfnunar eða að öllu leyti eða fylgja frumvarpinu óbreyttu, það eru sjálfsagt ýmis sjónarmið í þeim efnum. Mér finnst ekki hægt að ljúka umræðum um þetta án þess a.m.k. að mönnum sé það ljóst að þessi staða er uppi í málinu.

Að lokum er auðvitað ástæða til að benda á það að þetta mikla tekjutap sveitarfélaganna vegna þessara aðgerða — sem að vísu liggur aðallega inni í framtíðinni og menn eru sumir hverjir ekkert mikið að hugsa um hana, það gætir stundum dálítillar léttúðar gagnvart því að einhver eigi að sýna ábyrgð og rýna inn í framtíðina og spyrja sig að því hvernig þetta kemur við komandi kynslóðir, hvernig þetta kemur við þá sem verða að baksa við að koma saman fjárlögum eða fjárhagsáætlunum sveitarfélaga eftir 10 ár eða 20 ár — mun ekki létta þeim róðurinn, svo mikið er víst.

En hér er sveitarfélögunum ætlað að bæta sér tekjutapið sem af skuldaaðgerðunum leiðir með sínum eigin tekjum. Það er alveg ljóst. Þetta er bara spurning um hvernig þeim er útdeilt. Það er engin gæska af hálfu ríkisstjórnarinnar að láta sveitarfélögin fá 2,12% af tekjuaukanum vegna hækkaðs bankaskatts, það gerist sjálfvirkt. Þannig eru lögin að allar ákvarðanir stjórnvalda, nánast eins og þær leggja sig, um hækkun á hinum breiðu skattstofnum þýða sjálfkrafa að tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga aukast í leiðinni um 2,12% af þeirri hækkun. Þess vegna var það auðvitað þannig að sveitarfélögin á síðasta kjörtímabili nutu gífurlega góðs af dugnaði þáverandi ríkisstjórnar við að afla ríkinu tekna, af því að þau fengu alltaf þessi 2,12% af tekjuaukanum.

Þar af leiðandi finnst mér í ljósi þess að sveitarfélögunum er ætlað að bæta sér tekjutapið með sínum eigin tekjum að við þurfum að hafa dálítið sterk rök til þess að leyfa þeim ekki að ráðstafa því á þann hátt sem þau vilja sjálf. Þetta eru í raun og veru þeirra eigin fjármunir. Þetta er þeirra hlutdeild í þessum tekjum eins og hún er og hefur lengi verið samkvæmt lögum. Hvaða umboð hefur nefndin tekið sér í þeim efnum, eins og ég segi ekki síst í ljósi þess að þetta eru ósköp einfaldlega lögverndaðar tekjur sveitarfélaga, hlutdeild þeirra í þessum tekjustofni? Er þá ekki dálítið langt gengið að fara að ráðskast með það hvernig því er útdeilt á milli sveitarfélaganna? Mér þætti vænt um að formaður virðulegrar þingnefndar gerði okkur aðeins betur grein fyrir þessum vinkli málsins.