144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég held að ástæða sé til að gera aðeins grein fyrir þeirri breytingartillögu sem dreift var hér fyrir skemmstu og tekin á dagskrá áðan með afbrigðum. Hún er flutt af okkur þremur fulltrúum minni hlutans í efnahags- og viðskiptanefnd, hv. þingmönnum Helga Hjörvar, Guðmundi Steingrímssyni og þeim sem hér stendur. Þar er ósköp einfaldlega lagt til að sykurskatturinn verði áfram til staðar innan rammans sem nú er í lögum um vörugjöld. Þetta er tiltölulega einföld breyting, þ.e. lagaramminn er til staðar og þarf í raun ekki annað en skipta út orðinu „vörugjald“ fyrir „sykurgjald“ og „vörugjaldsskýrslum“ fyrir „sykurgjaldsskýrslur“ o.s.frv. og breyta heiti laganna í „Lög um sykurgjald“. Þá er þar til staðar fullnægjandi rammi um innheimtu sykurgjalda sem vörugjalds í tilteknum fjárhæðum pr. kílógramm eða hvern lítra af gjaldskyldri vöru. Þetta er nálægt því að vera þriggja milljarða tekjustofn fyrir ríkið, samanber upplýsingar þar um í greinargerð fjárlagafrumvarpsins. Ég leyfi mér þá að minna aftur á að þeir sem lesa bls. 208 í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu sjá þar texta sem gengur út frá því að sykurgjöldin verði áfram til staðar, þ.e. vörugjöld á mat og drykkjarvörur sem inniheldur sykur eða sætuefni. Þeim hluta almennu vörugjaldanna sem þannig stæðu eftir er þá ætlað að skila 2,8 milljörðum kr. í tekjur, eða 0,5% af öllum skatttekjum ríkissjóðs eins og þær voru á árinu 2014.

Þetta ætti að færa mönnum heim sanninn um að hér væri ekki verið að leggja til nein þau ósköp sem stjórnarliðar gætu ekki að minnsta kosti litið á. Þetta stóð til samkvæmt fjárlagafrumvarpinu þegar greinargerð þess var lokað hér í sumar. Síðan er að vísu vísað í það að nánar megi lesa um þetta í kafla 3.3 í fyrra hefti fjárlagafrumvarpsins sem kann svo að vera að sé svo ekki í góðu samræmi við það sem niðurstaðan varð, samanber það misræmi sem var í lögskýringum, annars vegar í greinargerð fjárlagafrumvarpsins og hins vegar tekjufrumvarpinu þegar þau komu fram og jafnvel að einhverju leyti þessu fyrra hefti með fjárlagafrumvarpinu. Ég hef kannski ekki haft tíma til að kemba það nægjanlega, en hef þó ástæðu til að ætla að jafnvel hafi verið misræmi á milli þessara tveggja hluta greinargerðanna með fjárlagafrumvarpinu, fyrra heftisins og seinna heftisins eða aðalheftisins. En hvað um það.

Sérstaklega ætti þetta að auðvelda framsóknarmönnum lífið sem, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi, hafa úr þessum ræðustól og í fjölmiðlum lýst þeirri skoðun sinni að sykurskatturinn ætti að halda áfram, að þeir væru ekki að ganga gegn stjórnarstefnunni ríkulegar en svo að þeir gætu skotið sér á bak við greinargerð fjárlagafrumvarpsins um að þetta væri í besta lagi. Ekki þarf að fjölyrða um það að þarna skapast talsvert svigrúm til að ráðstafa þessum fjármunum, rétt tæplega þremur milljörðum kr., t.d. í einhver heilsutengd verkefni og væri þá bara staðfesting þess að þessi sérstaka skattlagning á óhollustuvöruna sykur þjónar tvíþættum tilgangi, eða þríþættum má segja. Almennt er nú álitið svo að verulegar álögur á eina vörutegund dragi frekar úr neyslu hennar en hitt og þar með skaðsemi sem óhóflegri neyslu tengist, í öðru lagi sé það eðlilegt að óhollustuvarningur af þessu tagi, sem veldur samfélaginu miklum útgjöldum, tjóni, leggi af mörkum í þau útgjöld í formi skatttekna sem notkun fylgja og í þriðja lagi eru þetta auðvitað tekjur eins og hverjar aðrar tekjur í ríkissjóð og virðist nú ekki veita af að einhver muni eftir aumingja ríkissjóði og hann eigi einhverja vini við þessar erfiðu aðstæður á Íslandi því að stjórnarmeirihlutinn virðist alveg hafa misst sjónar á því að það skipti nokkru máli yfirleitt að halda að tekjugrunni ríkisins sæmilega óskertum.

Ég sé ástæðu til þess, áður en þessari umræðu lýkur um þessar viðamiklu breytingar á virðisaukaskatti og vörugjöldum, að vekja athygli að þessu leyti á þessari ágætu breytingartillögu og hvetja þingmenn til að skoða hana og að sjálfsögðu veita henni brautargengi þegar hún kemur hér til atkvæða að lokinni umræðu eða nær það nú verður.