144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Því er fljótsvarað. Það þarf að gera upp þrotabú föllnu bankanna. Það er stærsta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar. Gjaldeyrishöftin eru mesta ógnun við efnahagslega velsæld á Íslandi. Fólk finnur ekki fyrir þeim dagsdaglega en smátt og smátt draga þau úr samkeppnishæfni hagkerfisins og vexti í efnahagslífinu. Ég held að þau séu eitt af helstu umhugsunarefnunum sem við eigum að hafa núna þegar við sjáum tölur um lítinn hagvöxt. Því miður hefur ekkert gerst í því efni það sem af er þessu kjörtímabili.

Við settum hér lög, mjög mikilvæg held ég, í mars 2012 sem tóku þrotabúin undir gjaldeyrishöftin og sköpuðu okkur Íslendingum mjög sterka samningsstöðu við erlenda kröfuhafa. Framan af þessu kjörtímabili afneitaði forsætisráðherra því ítrekað að það ætti að standa í nokkrum samningaviðræðum við kröfuhafa. Það átti bara að fara einhverja gjaldþrotaleið. Forsætisráðherra hefur algerlega hrakist undan með þær hugmyndir sínar. Nú eru hafnar samningaviðræður við kröfuhafa. Þær voru meðal annars hér í síðustu viku þannig að það er ljóst að ríkisstjórnin hefur gefist upp á þeirri hugmyndafræði og er komin í einhverja aðra hugmyndafræði og nú er það ekki gjaldþrotaleiðin heldur sex ára gamlar hugmyndir um útgönguskatt sem getur ýmsum vandkvæðum reynst bundin. Það er skemmst frá því að segja að mér virðist að ríkisstjórnin hafi ekki náð að skapa trúverðuga áætlun um aðgerðir til að gera upp þrotabú föllnu bankanna og brjótast út úr þessum höftum og satt að segja sýnt litla viðleitni til að skapa þá þverpólitísku samstöðu sem þyrfti að vera um slíkan leiðangur.

Það eina sem gerst hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar í málefnum erlendra kröfuhafa er að það er búið að borga þeim hundruð milljarða í erlendum gjaldeyri inn á reikninga sína án þess að nokkur heildarmynd sé komin á lausn málsins.