144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:01]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það vill svo til í þessu máli að nú þegar hefur BHM sent frá sér nokkurs konar umsögn um þetta mál án þess þó að það hafi beinlínis verið sent út til umsagnar. Mig langar til að geta þeirra athugasemda sem Bandalag háskólamanna gerir við þessar fyrirætlanir. Fyrir það fyrsta að þau lög sem verið er að gera breytingar á voru samin af helstu sérfræðingum á sviði stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar. Það er líka skoðun bandalagsins að vald til að ákveða staðsetningu og flutning ríkisstofnunar eigi að vera hjá Alþingi og það komi í veg fyrir geðþóttaákvarðanir ráðherra. Þetta eru athugasemdir sem rökstuddar eru með mjög ítarlegum hætti í áliti BHM. Ég ætla ekki að fara nánar út í það hér á þeim stutta tíma sem ég hef til að ræða þetta mál í seinni ræðu minni.

Ég vil gera að sérstöku umtalsefni 10. gr. frumvarpsins þar sem verið er að gera breytingar á tveimur öðrum lagabálkum. Hið fyrra er upplýsingalög og hið síðara er lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Mig langar til að gera að umtalsefni breytinguna sem verið er að gera á upplýsingalögunum vegna þess að nýbúið er að fara í gegnum mjög mikla og ítarlega endurskoðun á þeim lögum sem ég sjálfur kom að á síðasta kjörtímabili. Þá voru mikilvægar breytingar gerðar á lögunum, nokkur atriði sem voru tekin til endurskoðunar og bætt til þess að auka enn frekar upplýsingagjöf stjórnvalda til almennings.

Í 10. gr. sem mig langar að gera hér að umtalsefni segir:

„1. málsl. 2. mgr. 27. gr. laganna orðast svo: Stjórnvöld skulu að öðru leyti gæta þess að haldið sé til haga mikilvægum upplýsingum, m.a. um samskipti við almenning og önnur stjórnvöld, svo sem með skráningu fundargerða eða minnisblaða.“

Þetta er ný setning sem þarna er skotið inn í lagafrumvarpið. Í skýringartexta um þennan a-lið greinarinnar segir, með leyfi forseta:

„Tillagan er sett fram í samhengi við 4. gr. frumvarpsins þar sem lögð er til breyting á núgildandi 11. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Breytingin felur í sér áréttingu á því að skrá beri mikilvægar upplýsingar um samskipti stjórnvalda við almenning og önnur stjórnvöld með sama hætti og aðrar mikilvægar upplýsingar.“

Það er í sjálfu sér ekki nein ástæða til að gera athugasemd við þetta, bara sjálfsagður hlutur.

Síðan segir hér enn fremur:

„Skilyrði er að um mikilvægar upplýsingar sé að ræða, t.d. fyrirspurnir, svör, yfirlýsingar, leiðbeiningar eða aðra upplýsingagjöf sem og ósk um eitthvað af framangreindu. Upplýsingarnar geta hvort heldur er verið til eða frá stjórnvaldi.“

Mér finnst þetta vekja spurningar. Til hvers? Af hverju er verið að safna saman upplýsingum um þá sem spyrja um upplýsingar? Á að halda sérstaka skrá yfir þá sem fara fram á tilteknar upplýsingar frá stjórnvöldum? Ég velti fyrir mér hvort það eigi ekki að vera sjálfsagður réttur hvers og eins borgara í samfélaginu að óska eftir upplýsingum hjá ríkinu án þess að um það sé haldin sérstök skrá. Samskipti borgaranna, einstaklingsins, við ríkið getur verið með ýmiss konar hætti. Það getur verið mikið einkamál hvers og eins hvaða upplýsingum hann er að leita eftir eða hvaða samskipti hann á við ríkið. Ég velti fyrir mér hvort hér sé verið að búa þannig í haginn að hægt verði að safna saman persónugreinanlegum upplýsingum um óskir, samtöl, beiðnir einstaklinga sem vilja kannski ekki að slíkar upplýsingar liggi fyrir, en eiga óumdeildan rétt á því að fá tilteknum erindum svarað. Þetta finnst mér vera áhyggjuefni. Ég held að maður hljóti að beina því til (Forseti hringir.) þeirrar nefndar sem málið fer til (Forseti hringir.) að þetta verði skoðað mjög vandlega í umfjölluninni.