144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:48]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að ekkert okkar hér inni hafi beinlínis á móti því að dreifa störfum um landið, ég held það megi segja það. En í þeim efnum eins í og flestum eru áherslur okkar og þungi misjafn. Þeim sem leggja meiri áherslu á það atriði en kannski ég var ekki gerður greiði með þessum flumbrugangi, með þessu klúðri; þeim sjónarmiðum, sem vissulega eru sterk, var ekki gerður greiði með þessu háttalagi. Það er ekki nokkur vafi á því. Það fer oft þannig að ef menn reyna ekki að ganga fram af ákveðinni varkárni þá detta þeir frekar en að komast vel áfram.

Ég sagði það í ræðu minni hér áðan að ég held að það sé engin tilviljun að þessi klausa, um að ráðherra gæti ráðið þessu, datt út 2011. Ég held að það hafi verið eitt af því sem menn þóttust hafa lært af öllu sem átti sér stað árið 2008, í aðdraganda þess, að ekki mætti veita einum einstaklingi of mikið vald og það þyrfti einhvern veginn að kontrólera það. Ég er viss um að það var þess vegna sem þessi setning fór út úr stjórnarráðslögunum.

Ég er alveg tilbúin að ræða hvernig við getum betur dreift störfum um landið. Ég segi nú oft þegar talað er um sjávarútveginn að ég er þingmaður fyrir (Forseti hringir.) stærsta sjávarútvegskjördæmi landsins þannig að það má náttúrlega ekki taka allt frá okkur.