144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

vopnaburður og valdbeitingarheimildir lögreglunnar.

[15:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu sem ég tel vera afar mikilvæga og mikilvægt að hún eigi sér stað hér í sölum Alþingis.

Eins og við þekkjum er hlutverk lögreglunnar í landinu að tryggja öryggi okkar borgaranna. Það er grundvallaratriði í réttarríki að lögreglan hafi burði til þess að tryggja öryggi og jafnframt að almenningur treysti lögreglunni til að sinna því starfi og að lögreglan standi undir því trausti. Við erum lánsöm og höfum verið lánsöm að búa í landi þar sem traust almennings gagnvart lögreglunni er mjög mikið.

Sú meginregla gildir eins og þingmönnum er kunnugt að íslenskir lögreglumenn eru ekki vopnaðir skotvopnum við dagleg störf og vopnin eru geymd á lögreglustöðvum eða lögreglubifreiðum. Undir vissum kringumstæðum er lögreglu heimilt að vopnast. Settar hafa verið tilteknar reglur um valdbeitingu lögreglumanna um meðferð á notkun valdbeitingartækja, en þær voru settar árið 1999 af þáverandi dómsmálaráðherra, samkvæmt heimild í 3. gr. vopnalaga frá 1998. Þær hafa ekki verið gerðar opinberar hingað til, það er alveg rétt. Ástæðan fyrir leynd þeirra reglna og leynd á efni þeirra er fyrst og fremst sú að reglurnar hafa að geyma upplýsingar um skipulag löggæslu og varða öryggi ríkisins. Við mat á því hvort reglurnar séu birtar verður að hafa í huga hvort opinberun reglnanna raski almannahagsmunum. Einnig þarf að huga að því að tilurð reglnanna á ekki að vera til þess að skapa tortryggni í garð lögreglunnar. Í nágrannaríkjum okkar eru þær birtar en ekki endilega í sinni ítarlegustu mynd. Þetta er hluti af þeim sjónarmiðum sem leggja þarf til grundvallar við mat á því hvort reglurnar skuli birtar.

Í ljósi þessa kannaði ég, þegar ég kom til starfa í innanríkisráðuneytinu, afstöðu ríkislögreglustjóra, Landssambands lögreglumanna, og lögreglustjóra í landinu auk Landhelgisgæslunnar til þess að birta umræddar reglur. Afstöðu þeirra fékk ég núna rétt fyrir helgi og eftir stendur endanleg ákvörðun mín að ákveða birtingu þeirra. Við þá ákvörðunartöku þarf að tryggja það grundvallarstef að öryggi borgaranna þarf ætíð að vera í öndvegi.

Í lögreglulögum eru lögfest ákvæði um skyldur lögreglumanna, valdbeitingarheimildir og handtökuheimildir, leit á mönnum og önnur afskipti af borgurunum. Samkvæmt 14. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, er lögreglu heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna. Aldrei má þó ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni. Grundvallarregla þessi felur í sér að stjórnvöld verða að gæta hófs í meðferð valdsins. Lögreglunni ber ávallt að hafa meðalhófsregluna í heiðri við framkvæmd starfa sinna. Þá setja reglur 12. og 13. gr. almennra hegningarlaga um neyðarvörn og neyðarrétt og valdbeitingu lögreglu takmörk. Samkvæmt 12. gr. almennra hegningarlaga má ekki beita vörnum sem eru auðsjáanlega hættulegri en árásin og það tjón sem af henni mátti vænta gaf ástæðu til. Það leiðir af þessari reglu að ekki komi til greina að nota skotvopn nema í ýtrustu neyð þegar atvik hafa þróast með þeim hætti að það er óhjákvæmilega síðasta úrræði.

Ríkislögreglustjóri leggur mat á þörf lögreglu fyrir búnað þó ákveðin notkun vopna og hverrar gerðar vopn sem tilgreind eru í reglunum skuli vera. Það þarf til að mynda ekki atbeina ráðherra eða ráðuneytis til kaupa á vopnum svo fremi að fyrir hendi séu fjárheimildir og kaupin séu í samræmi við settar reglur. Mat ríkislögreglustjóra á trúnaðarþörf lögreglunnar byggist á áhættumati á víðtækum grunni sem tekur mið af þróun mála hérlendis og erlendis og segir til um líklega framtíðarþróun.

Þá hefur síðustu áratugi verið litið til norsku lögreglunnar varðandi fyrirmyndir að viðbúnaði lögreglu, svo sem hvað varðar sérsveitina og annað vopnaðan viðbúnað.

Óheimilt er að nota annan búnað og vopn en þann sem samþykktur er af ríkislögreglustjóranum. Markmiðið er að lögreglan noti samræmdan búnað sem hefur hlotið viðurkenningu ríkislögreglustjórans. Hjá honum er haldin sérstök skrá um vopnaeign lögreglu. Í hana skrá lögreglustjórar upplýsingar um vopn lögregluliða og útgefin lögregluskotvopnaleyfi.

Ráðuneytinu hefur borist bréf allsherjar- og menntamálanefndar um vopnaöflun lögreglu, sem var ódagsett en móttekið 13. janúar síðastliðinn. Í bréfinu kemur meðal annars fram að nefndin telji mikilvægt að hún sé upplýst almennt um stöðu löggæslumála í landinu svo að henni sé betur fært að sinna eftirlitshlutverki sínu gagnvart framkvæmdarvaldinu og að nefndin verði með formlegum hætti upplýst ef eitthvað breytist varðandi þær aðstæður. Ég hef ekkert við þá tilhögun sem nefndin kynnir í bréfinu að athuga og fagna því í raun og veru aðkomu nefndarinnar að því að tryggja að löggæslustofnanir okkar hafi lagalegt umboð og getu, það er afskaplega mikilvægt fyrir umræðuna um þetta í landinu.

Ég vil að lokum ítreka það sem ég sagði áðan, að með því að leita afstöðu þeirra sem gerst þekkja til þessara mála, þá er ég núna að undirbúa að taka ákvörðun um hvernig ég held á meðferð þessara reglna.