144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma inn á afleiðingar skattbreytinga sem hér voru aðeins ræddar áðan. Mig langar til að ræða um matarskattinn svokallaða, eða sykurskattinn, sem við þingmenn Vinstri grænna og fleiri ræddum mikið fyrir fjárlagagerðina. Það vekur kannski svolitla furðu þegar skoðað er að velferðarráðuneytið var með vinnuhóp sem skilaði tillögum og aðgerðaáætlun um að draga úr offitu, þar sem lögð var áhersla á að halda sykurskattinum háum eða hækka hann til dæmis á gos og svaladrykki og annað slíkt en lækka skattana hins vegar á hollustuna. Má svo sem segja að landlæknir hafi tekið undir þetta, þ.e. embætti hans, og telur það ekki farsælt út frá sjónarmiðum heilsueflingar að lækka þessar álögur og bendir á auknar líkur á offitu og tannskemmdum sem við erum svo að bregðast við í heilbrigðiskerfinu með öðrum hætti og kostar okkur mikið.

Vitnað er hér í rannsóknir í The New England Journal of Medicine sem sýndu að verðstýring með sköttum og vörugjöldum getur haft mikil áhrif og stýrt neyslu þar sem þörfin er einmitt brýnust þegar börn og ungmenni eru að mótast, það eru þau sem drekka hvað mest til dæmis af gosi.

Í annarri grein sem birtist í The Lancet árið 2011 var lagt mat á hvaða aðgerðir stjórnvalda í Ástralíu skiluðu mestum ávinningi til að bæta heilsu og draga úr útgjöldum til dæmis vegna offitu. Niðurstaðan var að skattar á óhollustu væri áhrifaríkasta leiðin.

Virðulegi forseti. Offitan er einn sá alvarlegasti faraldur sem geisar í vestrænum samfélögum og maður veltir auðvitað fyrir sér hvernig þetta rímar við lýðheilsustefnu ríkisstjórnarinnar og þá aðgerðaáætlun sem setja á fram á þessu ári. Lækkun sykurskatts og lýðheilsa, það fer bara ekki saman.