144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég kynni hér frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, með síðari breytingum, jöfnunargjald.

Samkvæmt núgildandi lögum er gert ráð fyrir því að kostnaður almennra notenda vegna dreifingar raforku á þeim svæðum þar sem Orkustofnun hefur heimilað sérstakar dreifbýlisgjaldskrár sé greiddur niður eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Skilyrði fyrir niðurgreiðslu er að meðaldreifingarkostnaður notenda á orkueiningu sé umfram viðmiðunarmörk sem taki mið af hæstu gjaldskrá dreifiveitu í þéttbýli. Er því gert ráð fyrir að þeirri fjárhæð, sem ákveðin er í fjárlögum til þessarar jöfnunar, sé síðan skipt hlutfallslega eftir orkunotkun á dreifbýlisgjaldskrársvæðum miðað við kostnað dreifiveitu umfram viðmiðunarmörk í reglugerð sem ráðherra setur. Frá árinu 2005 hefur árlega verið veitt framlag í fjárlögum í þessu skyni á fjárlagalið 04-585, Jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, og er í fjárlögum fyrir árið 2014 gert ráð fyrir 544 millj. kr. til þessarar jöfnunar. Í landinu eru nú reknar sex dreifiveitur fyrir rafmagn og tvær af þeim dreifa verulegum hluta raforkunnar á svokallaðri dreifbýlisgjaldskrá. Árið 2005 nægðu 230 millj. kr. til fullrar jöfnunar en frá þeim tíma hafa gjaldskrár dreifiveitna hækkað umtalsvert, m.a. vegna almennra vísitöluhækkana, og er nú gert ráð fyrir að kostnaður við fulla jöfnun sé um 1 milljarður kr. samkvæmt áætlunum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Í frumvarpi þessu, sem nú er endurflutt frá síðasta þingi, er gert ráð fyrir að lagt verði sérstakt jöfnunargjald á þá raforku sem fer um dreifikerfi dreifiveitna með það að markmiði að standa undir fullri jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda, þ.e. heimila og fyrirtækja sem fá raforku sína beint frá dreifiveitum. Þar sem álver og önnur stóriðja fá sína orku beint frá flutningskerfi Landsnets, en ekki í gegnum dreifiveiturnar, munu þau ekki greiða þetta sérstaka jöfnunargjald. Heildarorkuöflun inn á dreifikerfi dreifiveitna er um 3.380 GWst en þar af eru um 510 GWst skerðanleg orka. Þar sem sú orka er ótryggari er hún verðlögð með ódýrari hætti en forgangsorkan. Fyrirhugað er að gjaldið verði lagt á í tveimur áföngum á næstu tveimur árum og að það verði á endanum 0,30 kr./kWst á forgangsorku, sem gefi tekjur í kringum 862 millj. kr. (2.874 GWst á 0,30), og 0,10 kr./kWst jöfnunargjald á ótrygga orku sem gefi tekjur upp á um 51 millj. kr. Samtals er því reiknað með að tekjur af gjaldinu nemi um 913 millj. kr. á árinu 2016. Fyrsta skrefið í álagningu gjaldsins verði stigið á næsta ári og er áætlað að það skili 2/3 þessara tekna eða um 608 millj. kr. Þessar nýju tekjur kæmu þá til viðbótar við fyrrgreinda 240 millj. kr. fjárheimild sem fyrir var í lögum ársins 2013 til jöfnunarinnar. Gangi þessi áform um upptöku jöfnunargjalds eftir gerir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið ráð fyrir að meðaltalshækkun raforkureiknings hins almenna notanda í þéttbýli verði um 2,4% eða um 1.800 til 1.920 kr. á ári, miðað við 0,3 kr./kWst., og að raforkukostnaður í dreifbýli muni hins vegar lækka á móti um 8,3% eða um 8.760 til 10.680 kr. á ári. Er þá miðað við að meðalnotkun heimila á almennri raforku sé í kringum 5.000 kWst á ári.

Gert er ráð fyrir að Orkustofnun annist innheimtu jöfnunargjalds fyrir ríkissjóð og skal gjalddagi þess vera 1. desember ár hvert.

Ég ætla þá að lesa nefndarálitið með tillögunni um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, með síðari breytingum frá meiri hluta atvinnuveganefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helgu Barðadóttur og Ingva Má Pálsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Benedikt Guðmundsson og Sigurð Inga Friðleifsson frá Orkustofnun, Gunnlaug Júlíusson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Val Hafþórsson frá Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum, Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins og Bjarna Má Gylfason frá Samtökum iðnaðarins. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Byggðastofnun, HS Veitum hf., Orkubúi Vestfjarða ohf., Orkuveitu Reykjavíkur, Rarik ohf., Samorku, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum.

Frumvarp sama efnis var lagt fram á 143. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Samkvæmt lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku skal greiða niður kostnað við dreifingu raforku í dreifbýli ef hann fer umfram tiltekin viðmiðunarmörk. Frá árinu 2005 hefur árlega verið veitt fé í fjárlögum til að jafna kostnaðinn og hefur fjárheimildin verið óbreytt á þessum tíma eða um 240 millj. kr. Hins vegar er kostnaður við fulla jöfnun í samræmi við lögin áætlaður um 1 milljarður kr. Í frumvarpinu er lagt til að lagt verði sérstakt jöfnunargjald á þá raforku sem dreifiveitur taka á móti frá flutningskerfi Landsnets eða beint frá virkjunum að frádreginni þeirri raforku sem fer frá dreifikerfi inn á flutningskerfið.

Markmið frumvarpsins er að tryggja betur þá jöfnun á dreifikostnaði raforku sem lögin kveða á um. Gert er ráð fyrir að gjaldið verði lagt á í tveimur áföngum og verði 0,30 kr. á hverja kílóvattstund af forgangsorku og 0,10 kr. á ótrygga orku (skerðanlega orku). Því verði tekjurnar af gjaldinu samtals 913 millj. kr. á árinu 2016. Gjaldið verður lægra á árinu 2015 eða 0,20 kr. á hverja kílóvattstund af forgangsorku en 0,066 kr. af ótryggri orku. Gert er ráð fyrir að tekjurnar á árinu 2015 verði um 608 millj. kr. sem komi til viðbótar við 240 millj. kr. framlag fjárlagaliðarins en gert er ráð fyrir að þegar gjaldtakan verði að fullu komin fram á árinu 2016 muni það framlag falla niður.

Meiri hlutinn bendir á að gert er ráð fyrir auknu framlagi til niðurgreiðslu á húshitun í fjárlögum fyrir árið 2015. Er þar um 57 millj. kr. að ræða. Þá vísar meiri hlutinn til þess sem fram hefur komið hjá ríkisstjórninni að lögð verði fram tillaga til þingsályktunar til að ná fram afstöðu þingsins til lengri tíma stefnumótunar um að niðurgreiða að fullu kostnað við flutning og dreifingu raforku til húshitunar frá og með árinu 2016. Til að ná því markmiði er áætlað að auka þurfi niðurgreiðslur vegna húshitunar um 240 millj. kr.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Orðin „og koma til framkvæmda frá og með 1. janúar 2015“ í 4. gr. falli brott.

Alþingi, 10. desember 2014. Jón Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir.