144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

Vestnorræna ráðið 2014.

478. mál
[22:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér er alveg sama hvort það hafi verið ákveðið í Narsarsuaq eða einhvers staðar annars staðar, það tekur enginn ákvörðun um það að móta stefnu sem íslenska þingið og utanríkismálanefnd á að gera, bara svo það sé algjörlega klárt. Það er alveg ljóst hver það er sem mótar utanríkismálastefnu Íslands og með hvaða hætti hana á að móta, og það er ekkert sem hv. þingmaður segir sem breytir því, svo einfalt er það nú. Það er íslenska þingið sem gerir það í öllum stórum málum og ekkert sem hv. þingmaður getur vísað til breytir því.

Ég ætla alla vega að segja hv. þingmanni að það mun ekki gerast á minni vakt, á meðan ég stend vaktina hér í þinginu, að með þeim hætti verði utanríkisstefna Íslands mótuð.

Hv. þingmaður var spurð um það áðan — og hvað svo, hvað á að gera við niðurstöðuna? Hún vissi það ekki einu sinni. Það er ekki einu sinni búið að hugsa það til þrautar. Jú, kannski senda það til einhverra ráðuneyta. Og hvað svo? Hvað annað?

Ég ætla ekki að hafa frekari orð um það en ég segi bara: Utanríkisstefna Íslands er ekki mótuð með þessum hætti.