144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:52]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir þessar spurningar. Hann endaði á að segja: „Nú er allt í einu orðið dýrara að kynda í þéttbýlinu en dreifbýli.“ Kannski getum við byrjað á að tala frá þeim punkti þar sem hann endaði. Ég held að það sé nákvæmlega verkefnið. Gengið hefur mjög hægt að viðurkenna stöðu dreifbýlis gagnvart dreifikostnaði á raforku. Við erum að stíga ákveðið skref í því.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir líka þegar hann nefnir þessa tölu, 15.000–20.000 kr. árlega hækkun. Við vitum það ekki. Það liggja ekki fyrir neinir nákvæmir útreikningar á því. (KLM: Það verður hækkun.) Hv. þingmaður spyr mig hvernig ég ætli að réttlæta þessa hækkun fyrir íbúum í Bolungarvík, en ég veit ekki enn þá hver hækkunin verður eða hvort hún verður í þeim mæli sem hv. þingmaður nefnir hér. Svar mitt er eins og komið hefur fram áður: Þetta er fyrsta skrefið í aðgerð okkar að jafna húshitunarkostnað. Við ákváðum að stíga skrefið með þessum hætti. Við erum ekki sammála um leiðina, það hefur komið fram, þar greinir okkur á, en með þessu ætlum við að ná þeim áfanga að jafna húshitunarkostnað, sem ég held að sé mjög stór áfangi og ég er mjög kátur yfir að ná. Hann hefur þann ókost sem hér hefur verið rakinn sem rekur okkur þá strax að næsta skrefi, að ná málinu lengra fram til jöfnunar.