144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

framtíðarsamskipti Íslands og Evrópusambandsins.

[10:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um að við höfum ekki langtímahugsjón. Hugsjónin kemur að sjálfsögðu fram í stefnunni sem við höfum kynnt og í þeim orðum mínum sem ég hef kynnt hér og rætt við hv. þingmann um að EES-samningurinn sé það sem við munum lifa við á næstunni.

Ég sagði líka áðan að samningurinn væri ekki gallalaus, það væru ákveðnir gallar á honum. Hann er rúmlega 20 ára gamall og það er eðlilegt að fara yfir hvernig hann hefur þróast á þessum 20 árum, ræða við Evrópusambandið og kollega okkar innan EES-samstarfsins um þær breytingar sem hafa orðið og hvort ástæða sé til þess að setjast niður og velta upp ákveðnum hlutum.

Ég hef sjálfur gagnrýnt og sagt að mér finnist sem sú pólitíska hugsjón og hugsun sem var í samningnum í upphafi virðist einhvern veginn hafa fjarað út. Kannski eru það kynslóðaskipti sem hafa orðið innan Evrópusambandsins, í stjórnunarstöðum þar eða eitthvað slíkt. En við þurfum hins vegar að setjast niður og velta því fyrir okkur hvernig við getum látið þennan samning fúnkera betur, ef við viljum nota slíkt orðalag. En hann gildir hins vegar, og það er ekkert á dagskránni, alla vega hjá þessum ráðherra sem hér stendur að (Forseti hringir.) fara út úr EES.