144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[13:42]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Eins og er er bara einn þingmaður hér en ég vona að fleiri bætist í salinn þar sem við erum að fjalla um jafn mikilvægt mál og skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. Eins og allir vita erum við ekki „eyland“ þrátt fyrir að vera eyland. Tilvera okkar er samfléttuð við heiminn allan og það er svo margt í heiminum okkar sem hefur í raun og veru engin landamæri. Ég hef lengi látið mig varða alþjóðamál, hvort heldur er innan þings eða fyrir tíma þingsins, og mig langar til að gera tvö eða þrjú mál að mínum málum í umræðunum í dag.

Það dró til þeirra tíðinda þegar hinir hörmulegu atburðir áttu sér stað í Frakklandi að margir litu á þá sem árás á tjáningarfrelsi. Á sama tíma ákváðu leiðtogar Evrópu að nota tækifærið, á aðra höndina sögðust þeir vera í áfalli yfir þessari árás á tjáningarfrelsið en á hina fóru þeir fram á mjög víðtækar aðgerðir til að tálma það. Ég sakna þess svolítið að við skulum ekki beita okkur meira á því sviði í alþjóðastarfi er lýtur að tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs í hinum stafræna heimi. Í þessari skýrslu er víða fjallað um öryggis- og varnarmál og ég upplifði það þegar ég átti sæti í þingmannanefnd NATO að þá var fjallað töluvert um netöryggismálin. Það var fjallað um WikiLeaks á þeim tíma og útbúin skýrsla sem var svo yfirfull af vitleysu af því að þeir sem fjölluðu um þau mál höfðu ekki djúpstæðan skilning eða þekkingu á málefninu. Ég hef orðið vitni að og verið þátttakandi á ýmsum ráðstefnum þar sem fjallað er um þessi mál. Þekkingarleysi og æsingur í kringum þau er til vansa og eiginlega hættulegt. Þess vegna hegg ég alltaf eftir því þegar fjallað er um netöryggismál í tengslum við NATO. Þegar ég átti aðild að þinginu þurfti ég að gera 70 leiðréttingar á skýrslu um þennan málaflokk, sumar það veigamiklar að ef þeim hefði ekki verið breytt hefði ég þurft að segja mig frá skýrslunni. Sem betur fer var brugðist við einhverjum af þeim leiðréttingum sem ég kallaði eftir, en ef ég hefði ekki verið þarna hefði skýrslan staðið óbreytt.

Samkvæmt þessari skýrslu höfum við átt í auknu samstarfi við Bretana en samkvæmt þeim gögnum sem Edward Snowden hefur komið á framfæri hafa Bretarnir gengið ansi langt í að toga saman allar upplýsingar sem hægt er að toga saman en myndlíkingin af því er að ryksuga upp öll gögn um okkur. Ég held að fólk átti sig ekki á því hvað þetta er gríðarlega mikið inngrip í stjórnarskrárbundin grundvallarmannréttindi sem eiga að vera hluti af okkar mannréttindum. Við erum aðili að ýmsum sáttmálum og samningum um mannréttindi, t.d. Sameinuðu þjóðanna sem nú hafa bætt við í sinn mannréttindasáttmála orðinu „stafrænt“, þ.e. að friðhelgin sé ekki eingöngu bundin af kjötheimum. Okkur tekst illa að bregðast við mannréttindabrotum í heimahögum þó að við höfum oft skoðanir á því hvernig þau eru annars staðar. — Þið talið svolítið hátt saman, strákar. — Mig langar til að beina því til utanríkisráðherra að hann og starfslið hans tryggi að þeir fái notið umsagna og leiðsagnar um þennan málaflokk frá sérfræðingum sem eru ekki einvörðungu í að taka á þessum málum út frá hernaðarvinklinum. Það er mjög mikilvægt því að herir eru í grunninn búnir til til þess að passa upp á fólk í löndunum.

Það er annað sem ég hjó hér eftir og það er um Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og mannréttindi. Hér kemur fram að þrátt fyrir starf ÖSE og annarra alþjóðastofnana hafi staða mannréttindamála á ÖSE-svæðinu að mörgu leyti versnað á síðustu árum og gjáin breikkað hvað varðar afstöðu til mannréttinda. Maður þarf ekki að líta lengra en til Ungverjalands til að sjá að það er mikið til í því. Á árinu 2014 og í byrjun þessa árs hefur ÖSE einkum beint sjónum að vernd tjáningarfrelsis með sérstakri áherslu á frelsi fjölmiðla og öryggi blaðamanna. Ísland hefur hrunið á alþjóðastöðlum er lúta að nákvæmlega þessum málaflokki og það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir okkur hér heima að samtökin Blaðamenn án landamæra, „Reporters Without Borders“, gáfu nýverið löndum einkunn fyrir hvernig þau standa sig í þessum málaflokki. Ástæðan fyrir því að Ísland hrundi er mikil afskipti stjórnmálamanna af fjölmiðlum á Íslandi, sér í lagi þegar fyrrverandi aðstoðarmaður fyrrverandi innanríkisráðherra stefndi blaðamönnum með kröfu um að þeir yrðu fangelsaðir fyrir að hafa skrifað eitthvað sem þeir leiðréttu síðan. Það hefði ekki verið tilefni til fangelsisvistar neins staðar í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við, Norðurlöndin og Vestur-Evrópulöndin.

Mér finnst mjög mikilvægt að við beitum okkur meira á þessu sviði. Við höfum viðað að okkur töluvert mikilli þekkingu um hvar er hægt að finna lög sem virka í praxís og ég mundi vilja sjá fókusinn svolítið þar og að við nýttum okkur þá sérfræðiþekkingu sem við höfum.

Hér er líka fjallað um margt sem mér finnst mikilvægt og ég vil ekki halda ræðu bara á neikvæðum nótum. Mér finnst mjög jákvætt hvernig við höfum beitt okkur fyrir málefnum kvenfrelsis og jafnri stöðu kynjanna sem og samkynhneigðra. Mér finnst neikvætt hvernig við höfum dregist aftur úr varðandi þróunarsamvinnu. Við virðum ekki þau markmið sem við settum okkur á síðasta kjörtímabili. Það sem ég upplifi í þessari skýrslu er að við höfum firnagóða embættismenn en okkur skortir sterka sýn á því hver við erum í þessu alþjóðasamfélagi. Það sem mér finnst svo óþolandi við okkur í alþjóðasamhenginu er að við hugum stöðugt að því hvað er best fyrir okkur og gleymum oft að við erum hluti af þessu alþjóðamengi. Mér finnst að við mættum gefa meira af okkur og vera meðvitaðri um hlutverk okkar. Það hefur verið pínulítið eins og aðgerðasinnans, við tökum skrefin sem enginn annar þorir að taka og af því að við erum lítil megum við það og fyrir vikið þora aðrir. Á síðasta kjörtímabili var til dæmis samþykkt ályktun um Palestínu sem við mörg vorum mjög stolt af og Svíþjóð fylgdi í kjölfarið. Margir eigna Svíþjóð það að vera fyrsta þjóðin fyrir norðan einhver mörk til að móta svona stefnu, koma fram með hana og fá hana samþykkta á þjóðþinginu. Það var samt fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson sem bar mikla ábyrgð á farsæld þeirrar ályktunar.

Ég mundi til dæmis vilja að við færum suður eftir og hittum fólkið á Gasa. Sendinefnd frá Alþingi ætti að fara þangað og þá finnst mér líka að sendinefnd frá Alþingi ætti að fara til Tíbet og kanna ástandið þar. Nú erum við komin í mjög náið samstarf við kínversk yfirvöld út af fríverslunarsamningi sem við gerðum við Tíbeta, en við höfum ekki gert vettvangskannanir á vegum þingsins.

Ég hef fylgst svolítið mikið með og verið upptekin af loftslagsbreytingum. Viðhorf okkar til þeirra hefur truflað mig gríðarlega mikið. Það er oft á þann veg að breytingarnar séu í góðu lagi, það verði bara aðeins hlýrra á Íslandi. Á sama tíma, út af okkar stefnu og lífsstíl, þjást margir fyrir þennan langtímalífsstíl sem við höfum haft. Ástæðan fyrir svo mikilli aukningu flóttafólks er ekki bara stríð. Af hverju verður stríð? Það verður yfirleitt út af minnkandi auðlindum, af því að fólk á ekki nóg að borða og út frá því koma inn ýmsir popúlistar og nýta sér óánægju í samfélaginu til að ná sér í meira land eða beita meiri kúgun í því landi.

Við vitum að sjálfsögðu að gríðarlegur fjöldi flóttamanna tengist Sýrlandi. Ég held að um 7 milljón börn séu á vergangi í Sýrlandi og það er enginn að taka á móti þeim. Það er flogið yfir fólkið þar og sprengjur sendar á það með klór. Ég var bara að lesa um það í dag. Þetta er náttúrlega algjör viðbjóður og spurningin hlýtur þá að vera: Hvernig beitir utanríkisráðherra sér til að aðstoða þennan mikla mannfjölda á vergangi í Sýrlandi? Skiptir það okkur einhverju máli eða eigum við bara að horfa í hina áttina?

Við höfum staðið okkur mjög vel með því að bjarga bátaflóttafólkinu, en hvað verður um það þegar við erum búin að bjarga því? Það er annaðhvort sent til baka eða sett í hálfgerðar fangabúðir. Við snúum líka við ansi mörgum sem leita ásjár hjá okkur. Út af auknum flaumi flóttamanna víðs vegar um heim af alls konar ástæðum er Evrópa að mörgu leyti að breytast í „Fort Europe“ eins og sumir kalla. Það eru settir miklir varnargarðar í kringum Evrópu af því að fólk óttast að það geti ekki tekið á móti þessum stöðuga straumi flóttamanna. Ég mundi vilja að við beittum okkur á allan þann hátt sem við getum og það getum við til dæmis gert í samstarfi okkar við Kínverjana. Þeir hafa unnið sér það helst til frægðar síðustu 10–20 árin að sjúga út auðlindir fátækra ríkja í Afríku og Suður-Ameríku og eru nú komnir með nokkuð góða fótfestu á Grænlandi. Við getum vakið athygli á því og kallað eftir því að slíkt arðrán viðgangist ekki. Við getum líka beitt okkur fyrir því að alltaf þegar við eigum erindi við ýmsa harðstjóra, hvort sem er Pútín, keisarinn af Kína eða Obama, að ræða við þá um stöðu mannréttindamála. Ég kalla eftir aðeins skarpari sýn um það hver við erum í hinu alþjóðlega samhengi í þessari samantekt hérna.